Laugardagur 15. janúar 2000

15. tbl. 4. árg.

Fyrir jólin kom út bókin Moskvulínan eftir Arnór Hannibalsson prófessor þar sem hann rakti hvernig íslenskir sósíalistar tóku við línunni frá Moskvu allt frá því upp úr 1920. Niðurstaða Arnórs var sú að þráðurinn hefði í raun aldrei slitnað, ekkert uppgjör hefði farið fram við sósíalismann. Eitt beittasta vopn íslenskra sósíalista var dagblaðið Þjóðviljinn. Þar voru birtar lofrullur um ógnarstjórnina í Sovét og andstæðingar kommúnismans úthrópaðir. Enda hefur nú komið á daginn að glæpamennirnir í Kreml lögðu fé í útgáfuna. Alþýðubandalagið hélt útgáfunni áfram þar til tveimur árum eftir hrun sovétkommúnismans og útgáfufélag Þjóðviljans fór í gjaldþrot. Í forystugrein Þjóðviljans 14. ágúst 1977 sagði :„En gæfa Þjóðviljans og stjórnmálasamtaka íslenzkra sósíalista hefur verið sú, að þráðurinn frá því fyrsta til þessa dags er þrátt fyrir sitthvað sem á milli ber óslitinn. Þótt framtíðin sé verkefnið lifir fortíðin í okkur og við í henni.“

Ef að hringt er í hið gamla númer Þjóðviljans (55)17500 í dag árið 2000 svarar símsvari Alþýðubandalagsins og kemur á framfæri skilaboðum frá Alþýðubandalaginu og Samfylkingunni. Jafnvel símalínan er óslitin. Það er því ekki ónýtur heimanmundur sem Alþýðubandalagið hefur með sér í samfylkingarsambúðina með Alþýðuflokknum: tugir milljóna í skuldir og símanúmer Þjóðviljans. En liðsmenn Alþýðubandalagsins eru fæstir hluti af ráðahagnum. Þeir eru flestir skuldlausir í flokki vinstri grænna.