Föstudagur 14. janúar 2000

14. tbl. 4. árg.

Það var fyrsta frétt Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að kosningabarátta Ólafs Ragnars Grímssonar fyrir fjórum árum hefði kostað 42 milljónir króna. Sigurður G. Guðjónsson stjórnarmaður í stuðningsmannafélagi Ólafs Ragnars kynnti þessa niðurstöðu fyrir sjónvarpsáhorfendum. Hann gat þess jafnframt að það hefði tekið þessi fjögur ár að safna fyrir kostnaðinum. Ítarlegri upplýsingar fengu áhorfendur ekki og voru því engu nær enda hafði áður verið áætlað að kostnaðurinn væri á þessu róli. Til dæmis sagðist Sigurður „ekki alveg með það á hreinu“ eftir fjögurra ára yfirlegu yfir bókhaldinu hvað forsetinn lagði fram sjálfur. Eins og menn muna sjálfsagt ætlaði Ólafur Ragnar að birta reikninga framboðsins eftir kosningar. Það hefur ekki verið gert þótt heildarkostnaður hafi loks verið gefinn upp nú. Ekki hefur verið upplýst hvernig tekjurnar skiptust, hvað kom frá einstaklingum og hvað frá fyrirtækjum, hversu stórum hluta var safnað fyrir kosningar, hversu stórum hluta var safnað innanlands og svo framvegis.

Og talandi um Ólaf Ragnar. Á þriðjudaginn skrifaði Sigtryggur Magnason, ritstjóri Stúdentablaðsins grein í DV um opinber ávörp Ólafs og var greinilega þeirrar skoðunar að best færi á því forseti Íslands setti fram skoðanir sínar á helstu deilumálum. Þetta rökstuddi hann með skotheldum hætti: „Ég er á því að sá stóri hluti þjóðarinnar sem kaus Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta Íslands hafi kosið hann vegna þess sem hann sagði en ekki bara vegna þess að hann hafði mál. Þeir sem kusu hann ekki verða því að sætta sig við það.“

Mætti Vefþjóðviljinn bæta því við, svona af því þeir eru til sem hafa gleymt því, að þeir sem kusu Ólaf Ragnar Grímsson alls ekki, voru mun fleiri en þeir sem kusu hann. Og skyldi engan undra. Sá stóri meirihluti þjóðarinnar sem ekki kaus Ólaf Ragnar Grímsson, situr hins vegar uppi með hann sem „sameiningartákn“ sitt. Ólaf Ragnar Grímsson!

Steingrímur J. Sigfússon formaður vinstri grænna varpaði fram þeirri hugmynd í sjónvarpsumræðum í gær að taka upp skyldusparnað til að slá á þensluna. Þetta væri ekki galin hugmynd hjá þingmanninum ef henni væri beint gegn eyðslu stjórnmálamanna á annarra fé, en það mun víst ekki vera hugmyndin að skylda þingmenn til að spara skattfé. Enda væri það í ósamræmi við fjölmargar tillögur stjórnarandstöðunnar á Alþingi að undanförnu um aukin ríkisútgjöld.

Steingrímur taldi tekjuskattslækkun síðustu ára líka mikið óráð og fannst nær að hækka skatta. Þetta eru skemmtileg sjónarmið að því leyti að þau minna á þá tíma þegar margir töldu að ríkið ætti að grípa sem mest inn í hagsveifluna til að draga úr þenslu eða kreppu. Nú hafa flestir hins vegar áttað sig á að ríkið er ekki í aðstöðu til að meta hvað á að gera, hvenær á að gera það og í hvaða mæli til að „fínstilla“ hagkerfið. Ekki þarf annað en bera spár Þjóðhagsstofnunar saman við raunveruleikann til að sjá að stjórnmálamenn geta ekki stillt hagkerfið af. Að ætla að hækka skatta þegar vel árar og halda að hægt verði að lækka þá þegar illa árar er kenning sem hefur alls ekki gengið upp og er sérstaklega hættulegt að beita. Hún á til dæmis stóran þátt í þeirri miklu hækkun skatta sem orðið hefur á þessari öld.