Fimmtudagur 13. janúar 2000

13. tbl. 4. árg.

Sumir eru uppteknastir af því að öllum gæðum sé jafnt skipt en hafa minni áhuga á því hvort allir hafi meira af þessum gæðum í dag en í gær eða hvort þau eru yfirleitt framleidd. Samkvæmt sjónarmiðum slíkra manna, þ.e. þeirra sem hugsa aðeins um hvernig menn standa hlutfallslega hver gagnvart öðrum, er heppilegra að fátækur maður haldist fátækur og ríkur maður verði fátækari, en að báðir verði ríkari á sama hraða. Jöfnuðurinn skiptir öllu máli, ekki það hvort menn hafa það betra eða verra en áður.

Þessar kenningar eru ekki aðeins notaðar til að bera saman einstaklinga eða hópa innan eins ríkis, heldur einnig til að bera saman ríki. Sumum líður illa þó öll ríki verði ríkari, ef því fylgir að sum verða ríkari hraðar en önnur. Það bil sem er milli fátækra og ríkra landa hefur verið töluvert rætt, m.a. í nýjasta tölublaði The Economist. Í tímaritinu segir að síðustu tvær aldir hafi bilið á milli ríkra og fátækra landa aukist en síðustu áratugi hafi það þó haldist svo til óbreytt. Þannig hafi ríku löndin orðið ríkari en hin fátækari einnig, án þess þó að ná hinum ríku nokkurn tímann.

Þeim sem er annt um að hagur allra batni eru út af fyrir sig ekki ósáttir við þessa niðurstöðu og gleðjast yfir því þegar allir efnast. Þeim sem finnst jöfnuðurinn aðalatriði en leggja minna upp úr raunverulegum efnahagsbata, líður illa yfir þessu, en ætti að líða betur við að kynna sér nýjar kenningar frá hagfræðiprófessornum Robert Lucas.

Kenning hans (sem m.a. byggir á reiknilíkani sem ekki verður farið út í hér en hægt er að lesa í Journal of Economic Perspectives) skýrir þróunina fram til dagsins í dag ágætlega og samkvæmt henni mun bilið á milli fátækra þjóða og ríkra minnka á næstu áratugum. Rökin fyrir því að þetta sé líkleg þróun eru margvísleg. Nefna má að háar tekjur í ríkum löndum ýta undir framleiðslu í hinum fátækari. Ríku löndin leggja mikið fé í nýjar uppfinningar en fátækari löndin geta nýtt sér þær með tiltölulega ódýrum hætti. Fjármagnsnotkun og menntun er einnig mun minni í fátækari löndum heimsins og þar er því einnig svigrúm til að ná ríkari löndunum. Fleira mætti nefna, en ekkert af þessu gerist hins vegar nema yfirvöld í löndunum leyfi því að gerast. Ef þau þvælast fyrir eins og því miður hefur orðið raunin allt of oft, þá mun þurfa að bíða enn lengur eftir hraðari vexti fátækari ríkja og efnahagslegum jöfnuði milli landa. Það sem hinar ríkari þjóðir geta helst gert til að aðstoða hinar fátækari er að eiga við þær sem mest viðskipti, t.d. með því að opna markaði sína fyrir landbúnaðarvörum.