Miðvikudagur 12. janúar 2000

12. tbl. 4. árg.

Efnahagslegt frelsi Íslendinga hefur aukist síðasta áratuginn. Samkvæmt nýjustu mælingu Fraser Institute, sem tekur mið af árinu 1997, hefur einkunn Íslands fyrir efnahagslegt frelsi þó lækkað frá því árið 1995, sem var viðmiðunarár síðast þegar gefin var einkunn, og landið fallið úr 16. í 25. sæti yfir þær þjóðir sem njóta efnahagslegs frjálsræðis. Þessi viðsnúningur skýrist einkum af því að önnur lönd hafa aukið frjálsræði í efnahagsmálum meira en við að undanförnu. Verndartollar á ákveðnar vörur eiga sinn þátt í þessu. Hátt hlutfall útgjalda hins opinbera hefur einnig neikvæð áhrif á einkunn Íslands. Heildareinkunnin er samsett úr einkunnum fyrir ýmsa þætti. Til dæmis fær Ísland aðeins 2,0 fyrir eignarhald á bönkum en sú einkunn mun væntanlega hækka næst vegna einkavæðingar ríkisbankanna. Einkunn fyrir verðbólgu er 9,7 en mun væntanlega lækka við næstu einkunnagjöf.

Sveitarfélögin hafa upp á síðkastið verið töluvert gagnrýnd fyrir eyðslusemi og óhóf í meðferð fjármuna skattgreiðenda. Í gær var rætt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson formann Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna þessa og þarf ekki að fara mörgum orðum um að hann vísaði þessu alfarið á bug. Sagði hann að sveitarfélögin væru bara að „framkvæma allra nauðsynlegustu hluti.“ Þessi orð gleðja væntanlega R-listann í Reykjavík, en í borgarstjórn situr einmitt þessi sami Vilhjálmur sem einn helsti talsmaður minnihluta sjálfstæðismanna. R-listinn þarf því ekki að óttast að minnihlutinn hefji andóf eða fari að mótmæla sukkinu og óráðsíunni hér eftir frekar en hingað til. Til upplýsingar má nefna að hluti af þessari „allra nauðsynlegustu“ eyðslu Reykjavíkurborgar er yfirbyggður knattspyrnuvöllur og fjölnota íþróttahús – að ógleymdri bráðnauðsynlegri gamlárskvöldsveislu borgarinnar í Perlunni.