Miðvikudagur 19. janúar 2000

19. tbl. 4. árg.

Margir hafa verið kallaðir í umræðunni um hver skuli leiða hina miklu Fylkingu vinstri manna, sem stefnir nú hraðbyri í að fylkja tíu af hundraði landsmanna að baki sér. DV hefur gert Össur Skarphéðinsson fyrrum ritstjóra blaðsins að frambjóðanda sínum, en fáir aðrir hafa risið upp honum til stuðnings. Margrét Frímannsdóttir formaður Alþýðubandalagsins og talsmaður Fylkingarinnar útilokar ekkert og kannar jarðveginn í þeirri von að stuðningsmenn Kastró muni verða fjölmennir á kjörstað. Jóhanna Sigurðardóttir hyggst bjóða sig fram verði valið lýðræðislegt. Lúðvík Bergvinsson og Bryndís Hlöðversdóttir munu vera að íhuga sameiginlegt framboð til formanns og varaformanns. Guðmundur Árni Stefánsson kannar framboðsmöguleika og ætlar líklega að byggja sérstaklega á reynslu sinni sem farsæll og réttsýnn ráðherra. Til sögunnar hefur einnig verið nefndur Jón Baldvin Hannibalsson, sem reyndi fyrir mörgum árum að sameina vinstri menn á rauðu ljósi og dreymir um að komast aftur í baráttuna.

Einn forystumaður á vinstri vængnum hefur gleymst í allri þessari umræðu, en hann var fyrir um áratug ekki síður réttsýnn ráðherra en Guðmundur Árni varð síðar og fór auk þess um á rauðu ljósi með Jóni Baldvini. Hann hefur svo þann kost að vera fyrrum formaður Alþýðubandalagsins eins og Margrét Frímannsdóttir og marga aðra kosti mætti nefna sem nýtast vel til að leiða Fylkinguna út úr þeim vandræðum sem hún er nú í. Þetta er vitaskuld Ólafur Ragnar Grímsson sem í á fjórða ár hefur látið sér leiðast á Bessastöðum en eygir nú möguleika að komast aftur í starf þar sem eiginleikar hans nýtast betur en í núverandi starfi. Þessar vangaveltur eru væntanlega ástæða þess að Ólafur Ragnar hefur enn ekki lýst því yfir að hann hyggist leita eftir endurkjöri til forseta.

Það er annars furðulegt að Fylkingarfólk virðist álíta að skortur á forystu og flokki sé það eina sem standi fylgi þess fyrir þrifum. Þessu ágæta fólki virðist ekki detta í hug að kjósendur vilji líka sjá stefnu sem gengur upp. Eða að minnsta kosti einhverja stefnu, það dugar vinstri grænum. Í gær var fundur á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs um framtíðarutanríkisstefnu Íslands. Fulltrúar allra framboða nema Fylkingarinnar höfðu skýr svör við því hvað Ísland ætti að gera varðandi veru varnarliðsins og veru landsins í NATO. Þórunn Sveinbjarnardóttir Kvennalistakona og þingmaður Fylkingarinnar sagði ekkert um afstöðuna til varnarliðsins, en áður hefur út af fyrir sig komið fram að Fylkingin vill að það hverfi af landi brott. Hvernig eða hvenær er hins vegar með öllu óljóst.

Þegar Þórunn hafði verið þráspurð um afstöðuna til NATO var svarið sem loks kom afar loðið. Fyrst lagði hún áherslu á að „ólíkir stjórnmálaflokkar“ hefðu komið saman og myndað þessa fylkingu hennar. Þetta þýðir á mannamáli að mikið ósamkomulag sé um það hver stefnan skuli vera. Þá gat hún þess að verið væri að „hanna nýja stefnu fyrir nýja öld“, en í henni væri þó ekki gert ráð fyrir að gengið yrði úr NATO. Loks sagðist hún alls ekki telja NATO aðalatriði og þess vegna hefði hún ekki séð ástæðu til að ræða þetta sérstaklega. NATO er sem sagt svo smávægilegt atriði í vörnum Íslands að henni þótti eðlilegt að fara í gegnum heilan fund um öryggis- og varnarmál landsins án þess að minnast á afstöðuna til bandalagsins. Þegar „stefna“ Fylkingarinnar er með þessum hætti skiptir auðvitað engu hver leiðir framboðið eða hvort flokkur verður stofnaður. Hún verður áfram stefnu- og áhrifalaus.