Fimmtudagur 28. október 1999

301. tbl. 3. árg.

Gamanmál berast úr viðtækinu
Gamanmál berast úr viðtækinu

„Eins og ég þreytist aldrei á að segja fólki þá hefur líf mitt orðið miklu skemmtilegra eftir að ég varð áskrifandi að Stöð 2 og Sýn. Ég hef nefnilega mikla unun af því að horfa á sjónvarp“ sagði Kolbrún Bergþórsdóttir í Tímanum í fyrradag. Kolbrún er ekki bara ákafur sjónvarpsáhorfandi og ánægður áskrifandi þessara tveggja einkastöðva sem hún nefndi, hún er einnig einn ákafasti Alþýðuflokksmaður sem nú er á lífi. Það er því gaman fyrir hana að minnast þess að ekki einn einasti þingmaður Alþýðuflokksins – hins nútímalega jafnaðarmannaflokks – studdi frjálst útvarp þegar tekist var á um það á Alþingi á síðasta áratug. Meira að segja heilögum Jóni Baldvini Hannibalssyni, sem Kolbrún vægast sagt hefur í hávegum, tókst ekki að styðja afnám einkaréttar ríkisins til útvarps- og sjónvarpssendinga.

Átrúnaðargoð íslenskra vinstri manna í umræðum um kjarnorkuvopn, William Arkin, hefur eina ferðina enn viðurkennt að hafa hlaupið á sig. Nýlega ritaði hann ásamt öðrum grein um að á Íslandi hafi verið kjarnorkuvopn, en hefur nú dregið það til baka og segir að hann hafi ef til vill haft rangt fyrir sér. Þetta er út af fyrir sig ánægjuleg yfirlýsing þó flestum öðrum en honum og nokkrum íslenskum vinstri mönnum hafi verið vel ljóst að ekkert var á grein hans byggjandi. Það er verra að íslenskir vinstri menn munu líklega ekki sjá að sér og draga til baka óskir sínar um rannsóknarnefnd. Þeim þykir sjálfsagt enn að greinin hafi mikla þýðingu þó einn höfunda hennar hafi sagt að ekki sé á henni byggjandi.

Annað sem líklega mun ekki hafa mikil áhrif á íslenska vinstri menn eru fréttir þess efnis að einn ráðherra Sósíalistaflokksins hafi á fimmta áratugnum veitt leyniþjónustu Sovétríkjanna upplýsingar. Þetta hefur nú bæst við nýlegar upplýsingar um fjárstyrk frá Kreml. Þetta er allt hið athyglisverðasta í ljósi þess að vinstri menn hafa áratugum saman ásakað hægri menn um að vera „landsölumenn“. Undir þessum furðulegu fullyrðingum máttu hægri menn sitja á meðan vinstri menn seldu sig Sovétríkjunum á bak við tjöldin.