Föstudagur 29. október 1999

302. tbl. 3. árg.

Staksteinar Morgunblaðsins vitnuðu á miðvikudaginn í skrif Hjörleifs Guttormssonar um „ógnvænlega fjölgun jarðabúa“. Það er kaldhæðnislegt að Hjörleifur sem gekk ungur þeirri stjórnmálastefnu á hönd sem kostað hefur fleiri líf en nokkur önnur lýsi sig nú andvígan því að fólki fjölgi.  „Fólksfjölgunarvandinn er einn þáttur af því siðferðilega öngstræti sem mannkynið er statt í“ segir Hjörleifur í grein sinni sem hann ritar í tilefni þess að jarðarbúar eru orðnir 6 milljarðar. Það þykir Hjörleifi afleitt. Hann telur það til marks um „vistkreppu mannkyns“ að ný börn komi í heiminn og eigi betri lífsmöguleika en nokkru sinni fyrr. Fram á 18. öld hafði manninum lítið miðað við að sigrast á sjúkdómum og slæmum aðbúnaði. Meðalævi fólks hafði staðið í stað frá örófi alda og þótti gott ef menn komust yfir þrítugt. Fólksfjölgunin undanfarnar tvær aldir, ekki síst á síðustu áratugum er til marks um sigur mannsins á mörgum skæðustu sjúkdómum og heilbrigðisvandamálum sínum. Aukin og betri næring og heilnæmara umhverfi eiga sinn þátt í þessu. Það er stórmerkilegt að menn skuli halda því fram að þessi mikli sigur sé til marks um „vistkreppu mannkyns“.

Helsta vandamál mannsins er ekki vistkreppa heldur stjórnarherrar sem iðka þær kenningar sem Hjörleifur hefur haft í heiðri. Íbúar Norður-Kóreu og Súdan eru ekki hungraðir af því að jörðin getur ekki fætt þá heldur vegna sósíalisma og stríðsátaka. Lönd eins og Holland, Danmörk, Sviss og Hong Kong eru afar þéttbýl og hafa takmarkað magn hefðbundinna náttúruauðlinda. Hvers vegna er ekki „vistkreppa“ í þessum löndum? Þar er þvert á móti mikil hagsæld.
Börn sem fæðast í heiminn eru ekki byrði eins og Hjörleifur heldur fram heldur miklu frekar ávísun á enn betri lífskjör í framtíðinni. Ef stjórnmálakenningar Hjörleifs halda áfram að láta undan síga munu æ fleiri jarðarbúar geta tekið þátt í að bæta heiminn með framlagi sínu, gera okkur lífið léttara með nýjum uppfinningum og hagstæðri þjónustu.