Miðvikudagur 27. október 1999

300. tbl. 3. árg.

„Yfirgnæfandi andstaða gegn starfrækslu nektardansstaða“ var forsíðufyrirsögn í DV í gær. Þegar betur var að gáð á innsíðum blaðsins höfðu 55,3% aðspurðra lýst sig andvíg starfrækslu nektardansstaða í skoðanakönnun blaðsins. 22,0% voru hlutlaus, óákveðin voru 2,8%, 1,2% neituðu að svara og fylgjandi voru 18,7%. Þett kallar blaðið „afgerandi niðurstöður“ en samkvæmt könnuninni hafa tæp 45% ekkert á móti þessum stöðum. Nær helmingur aðspurðra lætur sér standa á sama eða er fylgjandi stöðunum. Hvernig í ósköpunum fer DV að því að finna það út að þeir sem eru andvígir þessum stöðum séu „yfirgnæfandi“?

En DV átti annan óvæntan leik í gær en þá birti blaðið frétt þess efnis að tólfti maðurinn hefði verið handtekinn í „stóra fíkniefnamálinu“ án þess að blaðið ræddi við vini, nágranna, vinnufélaga, ættingja eða unnustu mannsins. DV vék jafnvel frá þeirri hefð sinni að birta myndir af heimili hins grunaða, vinnustað og einkabíl og upplýsa um viðurnefni hans.

Það er ekkert nýtt að vinstri menn vilji banna almenningi eitt og annað en sjái sér svo ekki fært að hlíta banninu sjálfir. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi vakti á því athygli í Morgunblaðsgrein í gær að R-listinn setti nýlega mjög stranga reglugerð um auglýsingaskilti á almannafæri. Gengur reglugerðin mjög langt gagnvart fyrirtækjum sem vilja setja upp skilti á lóðum eða húsum sínum til að kynna starfsemi sína. Nú hefur R-listinn hins vegar ákveðið að gera auglýsingaskilti að tekjulind fyrir borgarsjóð. Þá gildir reglugerðin að því er virðist ekki. Mikið var gert úr þeirri hættu sem skilti einkaaðila gætu skapað ef bílstjórar færu að stara á þau. Skiltin sem borgin ætlar að hafa tekjur af verða sum við fjölfarnar umferðagötur eins og Hringbraut og beinlínis ætlað að fanga athygli bílstjóra.