Þriðjudagur 26. október 1999

299. tbl. 3. árg.

Vinstri menn hafa brugðist óheppilega við fregnum þess efnis að þeir hafi notið styrkja frá Sovétríkjunum. Þeir eru ævinlega snöggir til að krefjast rannsóknarnefnda og þurfa varla nokkurt tilefni, en nú þegar fyrir liggur að Sósíalistaflokkurinn hafi notið styrkja á að minnsta kosti sjötta og sjöunda áratugnum er annað uppi á teningnum. Nú þarf ekkert að rannsaka, en þess í stað hafa sumir þeirra brugðið á það ráð að hefja pólitíska gagnsókn og segja að fleiri styrki megi skoða, t.d. frá íslenskum einkafyrirtækjum. Eins hefur einhverjum þeirra þótt við hæfi að bera saman boðsferðir Íslendinga til annarra lýðræðisþjóða og fjárstyrki frá einhverri verstu harðstjórn sem uppi hefur verið.

Ekki er með nokkru móti hægt að bera svona lagað saman. Og þegar í ljós er komið að Einar Olgeirsson formaður Sósíalistaflokksins hafi á sama tíma og styrkirnir fengust farið austur til Moskvu í þeim tilgangi að ræða stefnuskrá flokks síns hljóta menn að tengja þetta tvennt saman. Hafi stefnan verið mótuð í samráði við Kremlarherra er það alvarlegt mál sem vinstri menn þurfa að fjalla um án skætings eða útúrsnúninga.

Benedikt fer austur
Benedikt fer austur

Eitt af því sem þarf að upplýsa er hvenær samskiptum vinstri manna við harðstjórana lauk. Því hefur stundum verið haldið fram að þeim hafi lokið árið 1968 eftir innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu en þó leikur grunur á að óformleg samskipti hafi verið töluverð mun lengur. Hvað með hressingarferðir íslenskra vinstri manna til Svartahafs? Þær voru farnar löngu eftir að Alþýðubandalagið var stofnað og benda til áframhaldandi samskipta. Í frétt í Morgunblaðinu 1. maí 1981 er sagt frá ferð Benedikts Davíðssonar til Moskvu. Þar heiðraði hann hátíðarhöld alræðisstjórnarinnar með nærveru sinni fyrir hönd ASÍ. Í sömu frétt er rætt við blaðafulltrúa ASÍ sem á þessum tíma vann einnig að útgáfu hins merka rits Frétta frá Sovétríkjunum. Haft er eftir honum að Benedikt muni ekki flytja Sovétmönnum neinn boðskap frá íslenskri verkalýðshreyfingu. Væntanlega hefur Benedikt ekki tekið við neinum heilræðum frá Kremlverjum heldur.

Vinstri grænir hafa líklega ekki áhuga á að fá upplýst hvernig í þessu liggur, en í Samfylkingunni ætti að vera fólk sem ekki vill tengjast þessu með nokkrum hætti. Í þeirri fylkingu er mikið af krötum sem alla tíð voru fylgjandi samstarfi lýðræðisríkjanna gegn Sovétríkjunum, en þar er einnig fólk sem á langt starf að baki í Alþýðubandalaginu. Þó Vinstri grænir kjósi að þegja um málið hlýtur Samfylkingin að taka það upp og ræða í fullri alvöru. Sér í lagi fyrst hún hefur valið fyrrum formann Alþýðubandalagsins til forystu.