Laugardagur 23. október 1999

296. tbl. 3. árg.

Tveir kaldastríðsdraugar vöknuðu á dögunum og sýndu að sumir hafa litlu gleymt og enn minna lært. Fyrri draugurinn er sú kenning að hér hafi á árum áður verið geymd kjarnavopn. Þeirri kenningu hefur ítrekað verið haldið fram í gegnum tíðina og ævinlega er það sama fólkið sem vekur máls á þessu. Jafnvel erlendi „fræðimaðurinn“ sem byggt er á er hinn sami og fyrr. Nú hefur hann fundið út að þó nafn Íslands sé ekki á lista frá bandarískum yfirvöldum um lönd þar sem kjarnavopn hafi verið geymd, þá sé augljóst að hér hafi verið kjarnavopn! Þeir sem þekkja til á Keflavíkurflugvelli og hafa jafnvel starfað þar áratugum saman segja að útilokað sé að þar hafi getað verið kjarnavopn, en þegar koma á höggi á pólitíska andstæðinga skiptir víst litlu hvort líklegt er eða ekki að rétt sé farið með staðreyndir.

Þessarar skoðunar virðast íslenskir vinstri menn að minnsta kosti vera, því þeir hafa hlaupið upp til handa og fóta út af þessum nýju „upplýsingum“. Þar er á ferðinni sama fólkið og hafði horn í síðu samstarfs frjálsu ríkjanna á Vesturlöndum gegn Sovétríkjunum. Þetta fólk og þeir sem á undan því fóru á vinstri væng stjórnmálanna gerðu tíðreist austur til sæluríkjanna að kynna sér hvernig koma mætti öllu í kalda kol hér á landi að sovéskri fyrirmynd. Nú er komið í ljós að hin miklu tengsl sem þetta fólk hafði við sovétríkin voru ekki aðeins hugmyndafræðilegs eðlis. Þar er komið að seinni draugnum, en hann er fjárstyrkur Sovétríkjanna til íslenskra vinstri manna.

Vinstri menn hafa lítið viljað kannast við slíka styrki, en nú hafa komið fram gögn sem sýna að Sósíalistaflokkurinn, forveri Alþýðubandalagsins og þar með bæði Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, hafi þegið 30 milljónir að núvirði frá Sovétríkjunum. Ólíkt gögnunum um kjarnavopnin sem íslenskir vinstri menn eru áhugasamari um, er ekki um langsóttar ágiskanir í eyður að ræða í þessu tilviki heldur sést þetta svart á hvítu. Það er vissulega umhugsunarvert að íslenskir vinstri menn hafi haft geð í sér til að taka við styrkjum frá ógnarstjórninni í Kreml, stjórn sem bar ábyrgð á dauða tuga milljóna þegna sinna.

Einnig er umhugsunarvert hvert fjármunirnir fóru. Fyrrum framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins segir ólíklegt að flokkurinn sjálfur hafi fengið allt þetta fé. MÍR og Mál og menning hafi líklega fengið bróðurpartinn. Því hefur oft verið haldið fram að Mál og menning hafi notið slíkra styrkja og að þeir hafi skipt sköpum í rekstri bókaútgáfunnar. Þessar fréttir renna nýjum stoðum undir þær grunsemdir.

Löngu er orðið tímabært að íslenskir vinstri menn geri hreint fyrir sínum dyrum hvað varðar samskipti þeirra við Sovétríkin og aðrar ógnarstjórnir, þar á meðal Kúbu, en talsmaður Samfylkingarinnar fór t..d. með hóp vinsti manna til Kúbu skömmu fyrir síðustu kosningar. Einn aðili þess uppgjörs ætti að vera Mál og menning, en full ástæða er til að fara fram á það að bókaútgáfan greini frá samskiptum sínum við erlendar ógnarstjórnir kommúnismans. Vinstri menn verða að gera upp fortíðina vilji þeir láta taka sig alvarlega nú.