Föstudagur 22. október 1999

295. tbl. 3. árg.

Það er gaman að sjá þegar pólítískir andstæðingar samgleðjast svo mjög að þeir mega vart mæla. Meiri- og minnihluti í borgarstjórn hafa að minnsta kosti látið þess ógetið við fréttamenn að nú hafa borgarráðsmenn beggja framboðanna fengið sérstakar skrifstofur í Þórshamri þar sem nokkrir þingmenn hafa einnig skrifstofur. En þar sem aðeins borgarráðsmenn hafa fengið skrifstofur eru nokkrir borgarfulltrúar alveg án skrifstofu hjá borginni. Borgaryfirvöld binda hins vegar miklar vonir við nýja viðbyggingu Alþingis en með henni munu skrifstofur þingmannanna í Þórshamri losna. Borgarstjóri hefur því lagt á það mikla áherslu að viðbyggingunni verði lokið sem fyrst.

Það er því í stíl við annað að borgaryfirvöld skuli mótmæla sérstaklega hugmyndum um að ríkið spari sér útgjöld með því að fresta umræddri viðbyggingu. Borgarfulltrúar líkt og aðrir opinberir aðilar vilja umsvif sín sem mest og þykir meira en sjálfsagt að þeir hafi hver og einn skrifstofu. Með bættri aðstöðu hafa þeir svo bætta möguleika á að ýta undir aukin umsvif borgarinnar. En það eru einmitt aukin umsvif borgarinnar sem eru og verða notuð sem rökstuðningur fyrir aukinni aðstöðu borgarfulltrúa. Hér er sem sagt um dæmigerða hringavitleysu að ræða þar sem skattgreiðendur tapa á hverjum snúningi. Hvernig væri að fækka verkefnum boragrfulltrúa svo þeir þurfi ekki skrifstofur?

Í sjónvarpsviðtali þegar umræða um svonefndan gagngrunn á heilbrigðissviði stóð sem hæst benti Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hf. réttilega á að það væri engin ástæða til að treysta einkafyrirtæki verr en ríkinu fyrir persónulegum upplýsingum um fólk. Ríkisstjórnir víða um heim hefðu oft brugðist trausti almennings og misnotað upplýsingar af þessu tagi. Sagan geymdi mörg dæmi um slíkt. Viðskiptablaðið vitnar svo í fyrradag til viðtals sem Reuter fréttastofan átti við Kára á dögunum. Í viðtalinu segir Kári frá því að í Danmörku og Svíþjóð séu ríkisreknir gagnagrunnar með heilsufarsupplýsingum en á Íslandi verði gagnagrunnurinn í vörslu einkafyrirtækis og ríkið geti hvenær sem er stöðvað starfsemi fyrirtækisins.   „Ef einkafyrirtæki rýfur friðhelgi einkalífsins er hægt að koma því á kné með einu pennastriki“, hefur Viðskiptablaðið eftir Kára. Svo varpar Kári fram spurningu: „Hvaða ríkisstjórn halda menn að hægt væri að koma á kné með sama hætti?“

Þetta er rétt athugað hjá Kára. Svo langt sem það nær. Það er hins vegar ekki náttúrulögmál að ríki þurfi að eiga heilsufarsupplýsingar um fólk. Til dæmis gæti fólk átt upplýsingarnar um sig sjálft. Það kann að vera að sú hugmynd sé framandi á Norðurlöndunum en þótt það kunni að hljóma ótrúlega þá er sú skipan mála ekki óþekkt í heiminum. Það er því ekki alltaf ríkið sem ákveður hvort heilsufarsupplýsingar fara í gagnagrunn á vegum ríkisins, einkafyrirtækis eða bara alls engan gagnagrunn. Einstaklingarnir sem upplýsingarnar eru um gætu tekið ákvörðun um það sjálfir. Þá gætu þeir líka sótt þann til saka sem treyst er fyrir upplýsingunum en varðveitir þær ekki betur en svo að þeim er flíkað í fréttatímum.
Allt bendir til þess að íslenska ríkið muni taka um það ákvörðun á næstunni að fela ákveðnum aðila að ráðstafa heilsufarsupplýsingum um einstaklinga, jafnt fullorðna, börn, fjarstadda og látna, í gagnagrunn. Einhver gæti haldið því fram að þar sé einmitt um að ræða þá notkun á persónuupplýsingum sem Kári hefur bent á að ríkisvaldið hafi áður verið staðið að. En hvað um það, ef rekstraraðili gagnagrunnsins verður staðinn að því að misnota þessar upplýsingar treystir Kári jú sama ríkinu til að kippa málinu í liðinn.