Helgarsprokið 24. október 1999

297. tbl. 3. árg.

Hinn 24. október 1929 hefur verið nefndur Svarti fimmtudagurinn og er þá vísað til þess að hlutabréf hríðféllu í verði í Bandaríkjunum þennan dag fyrir 70 árum. Í september þetta ár hafði Dow Jones hlutabréfavísitalan náð 381 stigi. Rúmum tveimur árum síðar var vísitalan komin niður í 41 stig. Í kjölfarið fóru um 11 þúsund af 25 þúsund viðskiptabönkum á hausinn, atvinnulausum fjölgaði úr 1,6 milljón árið 1929 í 12,8 milljónir árið 1933. Frá Svarta fimmtudeginum 1929 liðu nær 12 ár þar til efnahagslífið hafði náð sér á strik á nýjan leik en 25 ár liðu þar til Dow Jones vísitalan hafði aftur náð 381 stigi. Þetta tímabil er því kennt við Kreppuna miklu. Um ástæður þessarar miklu efnahagslægðar hefur mikið verið ritað. Í sögubókum sem notaðar hafa verið til kennslu við íslenska framhaldsskóla hefur því verið haldið að nemendum að óheftum kapítalisma, misskiptingu auðs, græðgi og spákaupmennsku megi helst kenna um kreppuna. Til stuðnings við þetta er jafnan dregin upp sú mynd af Herbert Hoover forseta Bandaríkjanna á upphafsárum kreppunnar að hann hafi verið einlægur stuðningsmaður afskiptaleysis ríkisins í efnahagsmálum. Til dæmis um slík áróðursrit má nefna Mannkynssögu eftir 1850 eftir A. Sveen og S.A. Aastad sem Mál og menning gaf út árið 1985.

Í Vef-Þjóðviljanum 28. júlí síðastliðinn var stuttur pistill um kreppuna og ástæður fyrir henni. Í kjölfarið sendu Ásgeir Jónsson og Arnbjörn Ingimundarson Vef-Þjóðviljanum hugleiðingar sem ástæðurnar fyrir kreppunni og hlutverk ríkisins á krepputímum. Það er því ekki úr vegi að birta þær hér ásamt frekari umfjöllun um kreppuna nú þegar 70 ár eru frá hruninu.

Hin svonefnda austurríska hagfræði býður upp á aðra skýringu á kreppunni en sögubækur frá Máli og menningu. Sú kenning hefur verið nefnd austurríska hagsveiflukenningin eða Austrian business cycle theory (ABCT). Bæði Mises og Hayek hafa haldið þessari kenningu á lofti. Samkvæmt kenningunni eiga krappar efnahagslægðir með fjöldagjaldþrotum sér aðeins stað þar sem skilaboð frá neytendum til fyrirtækja hafa verið brengluð. Vextir veita fyrirtækjum upplýsingar um hversu miklu neytendur vilja eyða strax og hve miklu síðar. Þ.e. hve mikið neytendur vilja eyða og spara. Ef fyrirtækin eru afvegaleidd um þennan smekk neytenda á því hvenær sé best að eyða peningum hljóti þau að taka rangar ákvarðanir um framleiðslu. Á þriðja áratugnum í Bandaríkjunum var mikil efnahagsuppsveifla. Austurrísku hagfræðingarnar halda því fram að ein af ástæðunum fyrir þessari miklu uppsveiflu hafi verið ódýrir peningar eða ódýrt lánsfé. Seðlabankinn hafi aukið peningamagn í umferð óeðlilega mikið og það hafi leitt til lægri vaxta sem gáfu fyrirtækjum til kynna að auka framleiðslu, ekki síst frumframleiðslu.

Þegar peningamagn er aukið falla peningar að öllu jöfnu í verði og það er nefnt verðbólga. Fleiri einingar af peningunum þarf því til að kaupa sömu hluti og áður. Þegar verðbólgan hefur leiðrétt verðgildi peninganna og vextir hafa náð jafnvægi á ný komast fyrirtækin hins vegar að því að þau hafa fjárfest á röngum forsendum. Vextirnir endurspegluðu ekki hversu miklu neytendur ætluðu að eyða strax og hve miklu síðar. ABCT gerir því ráð fyrir að þegar vextirnir hafi náð jafnvægi á ný hljóti fyrirtæki sem byggðu fjárfestingar sínar á ódýra lánsfénu að lenda í erfiðleikum. Þetta skýri hvers vegna mörg fyrirtæki lendi á erfiðleikum á sama tíma og hvers vegna kreppur  verði í efnahagslífinu. Í raun má líkja óraunhæfri aukningu á peningamagni við ríkisstyrki til fyrirtækja. Þau fyrirtæki sem fá slíka styrki taka oft óskynsamlegar ákvarðanir um aukna starfsemi. Þegar styrkjunum sleppir kemur hins vegar í ljós að ekki er eftirspurn eftir framleiðslunni og fyrirtækin lenda í erfiðleikum. Hið sama gildi um ódýrt lánsfé.

Bandaríski hagfræðiprófessorinn Murray Rothbard (sem var nemandi Mises) rannsakaði peningamál á þriðja áratugnum í Bandaríkjunum. Hann komst að þeirri niðurstöðu, m.a. í bók sinni America’s Great Depression, að af ýmsum ástæðum hafi peningamagn verið aukið um 70% á árunum 1921 til 1929. Ein ástæðan var sú einbeitta stefna Calvins Coolidge, sem var forseti 1923 – 1929, að halda vöxtum lágum. Hinir svonefndu peningamagnssinnar með Milton Friedman í broddi fylkingar eru ekki sammála austurrísku hagfræðingunum um þetta og benda á að engin verðbólga hafi mælst í Bandaríkjunum á þriðja áratugnum eftir hefðubundum mæliaðferðum þótt þeir viðurkenni að vöxtum hafi verið þrýst óeðlilega niður. Til dæmis hafi neysluverðsvísitala ekki hækkað. Austurrísku hagfræðingarnar benda hins á að þegar verð á húsnæði og hlutabréfum er tekið með í reikninginn komi verðbólgan í ljós. Hluta af verðbólgunni hafi einnig verið haldið niðri með þeirri miklu framleiðniaukningu sem átti sér stað á þessum árum vegna nýrrar tækni og aukinnar verkaskiptingar.

Austurrísku hagfræðingarnir og peningamagnssinnarnir eru hins vegar sammála um að rangt hafi verið brugðist við kreppunni. Seðlabankinn hafi haldið að sér höndum þegar viðskiptabankar riðuðu til falls en seðlabankinn hafði einmitt verið stofnaður sem öryggisventill fyrir banka sem lentu í tímabundnum erfiðleikum vegna skyndilegra „áhlaupa“ frá innistæðueigendum. Áður en seðlabankinn var stofnaður höfðu einkareknir bankar leyst slík áhlaup farsællega með samstarfi sín á milli og komið í veg fyrir keðjuverkandi hrun. Í Kanada var enginn seðlabanki á sama tíma og ekkert bankahrun varð þótt Bandaríkin væru aðalútflutningsmarkaður Kanada. Franklin Roosevelt gjörsigraði Herbert Hoover í forsetakosningum árið 1932. Hann hafði sakað stjórn Hoovers um að vera „mestu eyðslustjórn á friðartímum í Bandaríkjunum“ og demókratar sökuðu Hoover um að innleiða sósíalisma í landinu. Þótt sögubækur í íslenskum framhaldsskólum segi annað höfðu Roosevelt og félagar rétt fyrir sér að ýmsu leyti um stjórnartíð Hoovers. Með Smoot-Hawley lögunum sem tóku gildi árið 1930 vor settar upp víðtækar viðskiptahindranir gagnvart innflutningi. Áður höfðu Bandaríkjamenn einnig takmarkað innflutning með Fordney-McCumber tollalögunum árið 1922. Ýmis iðnfyrirtæki voru mjög háð ódýrum innfluttum efnum og þurftu því að senda starfsfólk sitt heim. Erlend ríki svörðuðu Bandaríkjunum í sömu mynt með tollum á bandarískar vörur. Markaðir lokuðust fyrir bandarískar landbúnðarafurðir og bændur og bankar í dreifbýli urðu gjaldþrota.

Þrátt fyrir að Roosevelt hafi gagnrýnt Hoover fyrir eyðlusemi herti hann sjálfur á eyðlustefnunni, gaf ekkert eftir í tollamálum þótt önnur ríki óskuðu eftir að tollmúrar yrðu rifnir niður, hann hafnaði jafnframt ósk þeirra um að setja gjaldmiðla á gullfót á ný, hækkaði skatta og útgjöld til velferðarmála, setti lög um lágmarkslaun sem gerði mörg hundruð þúsund manns atvinnulaus, lét borga bændum fyrir að gera ekki neitt til að draga úr framleiðslu, landbúnaðarframleiðslu var hent í stórum stíl á vegum stjórnvalda og Wagner lögin 1935 gerðu verkafólk réttlaust gagnvart verkalýðsfélögum en við það urðu fyrirtæki varnalaus gagnvart aðgerðum verkalýðsfélaga. Þegar öll þessi ríkisafskipti eru höfð í huga kemur ef til vill ekki á óvart að efnahagslægðin hlaut að lokum heitið Kreppan mikla.