Þriðjudagur 12. október 1999

285. tbl. 3. árg.

Ríkisútvarpið
Ríkisútvarpið

Áframhaldandi ríkisrekstur hljóðvarps og sjónvarps á ekki upp á pallborðið hjá ungum krötum og ungum sjálfstæðismönnum. Um daginn var hér sagt frá ályktun ungkratagegn ríkisrekstri útvarps og nú um helgina mótmæltu ungir sjálfstæðismenn því sama. Heimdallur félag ungra sjálfstæðismanna benti á fáránleika þess að skylda fólk til að greiða til RÚV án þess að það hafi óskað eftir áskrift, með því að innsigla RÚV. Ástæða lokunarinnar í Efstaleiti var sögð sú að RÚV hefði ekki greitt fyrir auglýsingar sem Heimdallur hafði hannað fyrir stofnunina. RÚV hafði að vísu ekki pantað auglýsingarnar, en Heimdellingarnir hafa víst ekki heldur pantað áskrift að RÚV. Óhætt er að mæla með auglýsingum Heimdallar fyrir RÚV, en þær hafa töluvert meira skemmtigildi en flest efni Ríkisútvarpsins.

Samband ungra sjálfstæðismanna samþykkti svo á sunnudag ályktun gegn þátttöku ríkisins á markaði ljósvakamiðlanna. Telur ungliðahreyfingin að sú þátttaka sé „ekki einungis óheppileg heldur beinlínis skaðleg“. Miðað við hversu langur tími leið frá því SUS barðist fyrst fyrir einkavæðingu undir orðunum „báknið burt“ og þar til einkavæðing hófst fyrir alvöru, má reikna með að Íslendingar þurfi að búa við Ríkisútvarp í um tvo áratugi til viðbótar. Sé ekki tekið tillit til vaxta verður hvert heimili í landinu þá búið að greiða um 500.000 krónur til þessarar stofnunar. Sá sem er svo heppninn að hafa greitt afnotagjöldin undanfarin 20 ár verður þá búinn að greiða tæpar 1.000.000 krónur ef ekki er tekið tillit til vaxta. Sá sem leggur andvirði afnotagjaldanna fyrir í 40 ár og fær 5% ávöxtun á hins vegar um 3.000.000 króna þegar upp er staðið.

Bryndís Hlöðversdóttir þingmaður gagnrýndi í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að ríkisstjórnin hefði lagt 60 milljónir af almannafé í ráðstefnuna Konur og lýðræði. Vef-Þjóðviljinn tekur undir þessa gagnrýni með Bryndísi og bendir jafnframt á að þessar 60 milljónir sem komu beint frá ríkinu eru ekki eina framlag skattgreiðenda til ráðstefnunnar. Stór hópur opinberra starfsmanna í ráðuneytum og stofnunum ríkisins vann að undirbúningi hennar og Ríkissjónvarpið bar allt annað skynbragð á fréttagildi ráðstefnunnar en aðrir fjölmiðlar og kostaði miklu til útsendingar frá henni. Ríkisstarfsmenn voru einnig þorri hinna 30 íslensku þátttakenda á ráðstefnunni. En embætti borgarstjóra, dómsmálaráðuneytið, Skrifstofa jafnréttismála, Hagstofan, Menntasmiðja kvenna Akureyri, Skólaskrifstofa Reykjavíkur, Nefnd um aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum, Jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar, Kærunefnd jafnréttismála, Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins, Kennaraháskólinn, embætti jafnréttisfulltrúa Landsvirkjunar, Háskóli Íslands, Nýsköpunarsjóður, Vinnueftirlit ríkisins, Landssími ríkisins, Alþingi og Jafnréttisráð ríkisins lögðu til einn eða fleiri fulltrúa á ráðstefnuna.