Miðvikudagur 13. október 1999

286. tbl. 3. árg.

Heimsviðskiptastofnunin (WTO) er töluvert í sviðsljósinu þessa dagana vegna fundar hennar í næsta mánuði. Financial Times og The Economist hafa til dæmis síðustu daga rætt áhyggjur sínar af því að þrýstihópar muni koma í veg fyrir að nægilega góður árangur í að auka viðskiptafrelsi náist á fundinum. Einn þrýstihópurinn eru umhverfisverndarsinnar, en þeir hafa horn í síðu frjálsra viðskipta og telja þau ekki fara saman við verndun umhverfisins.

Þessu er svarað í nýjasta tölublaði The Economist og bent á að frjáls viðskipti séu þvert á móti nokkuð sem umhverfisverndarsinnar ættu að aðhyllast sérstaklega. Ástæðan sé sú að frjáls viðskipti auka hagvöxt. „Þegar fólk verður ríkara vill það hreinna umhverfi – og hefur efni á því,“ segir tímaritið.

Því er oft haldið fram að inngrip ríkisins í verðmyndun á markaðnum séu nauðsynleg. Ein af röksemdunum fyrir þessari skoðun er að þeir sem bjóða vöru til sölu þvingi upp verð með því að sameinast gegn kaupendum. Staðreyndin er þó sú að slíkt samráð heldur yfirleitt ekki nema ef til vill til skamms tíma, enda hefur yfirleitt einhver hag af að rjúfa samráðið til að ná fram auknum gróða.

Á hrávörumarkaði í heiminum hefur samráð framleiðenda mikið verið reynt en ekki haldið til lengdar. Í dag verða Alþjóðasamtök um náttúrulegt gúmmí leyst upp, en þetta eru samtök helstu framleiðenda náttúrulegs gúmmís í heiminum. Eftir að þessi samtök hafa verið leyst upp eru samtök olíuframleiðenda einu samtök hrávöruframleiðenda af þessu tagi sem eftir eru í heiminum. Þeim hefur yfirleitt ekki gengið vel að standa saman til að halda uppi verði, en hafa þó náð nokkrum árangri upp á síðkastið. Reynslan segir að samstaðan muni ekki halda til lengdar, en svo geta menn líka velt fyrir sér skýringunum á því að þessi samstaða er yfirleitt möguleg, jafnvel í skamman tíma. Getur verið að skýringin sé ríkisbrestur en ekki markaðsbrestur? Kann að vera að það að hið opinbera er stór þátttakandi í olíuframleiðslu sé hluti skýringarinnar? Og getur verið að takmarkanir á olíusölu frá Írak hjálpi til við að halda verðinu uppi? Í þessu tilviki eins og oftast áður er ekki ólíklegt að ríkið eigi meiri sök en hörðustu stuðningsmenn þess kæra sig um að kannast við.