Stundum er sagt að gagnrýnar og málefnalegar umræður um menn og málefni eigi erfitt uppdráttar á Íslandi vegna smæðar þjóðfélagsins og stöðugs návígis milli fréttamanna og þá sem fjallað er um. Ekki hefur hins vegar verið skortur á gagnrýninni umfjöllun um ýmsa þá sem fjarri eru, t.d. um bandarísku forsetahjónin. Þó er eins og þessi gagnrýna umfjöllun eigi ekki við þegar viðkomandi einstaklingar heimsækja Ísland. Þá eru þeir allt í einu orðnir Íslandsvinir og þeim ber að hampa í samræmi við það. Þannig voru íslenskir fjölmiðlar duglegir við að hlaða frú Hillary Rodham Clinton forsetafrú lofi, meðan á heimsókn hennar hérlendis stóð. Stöð 2 fjallaði ýtarlega um ráðstefnuna Konur og lýðræði í fréttum sínum í gær og þar sagði afar hrifnæmur fréttamaður að það léku það ekki allir eftir frú Clinton að geta haldið góða 30 mínútna ræðu blaðalaust. Síðan var sýnt frá ræðunni og þar sást greinilega að frúin breiddi úr blöðum þegar hún steig í pontu og notaði þau við ræðuflutninginn.
Háðulegasta dæmið um snobbið var þó líklega þegar samtök íslenskra kvenna í atvinnulífinu sæmdu forsetafrúna sérstakri viðurkenningu og sögðu hana vera mikilvæga fyrirmynd fyrir konur í atvinnurekstri. Reynsla Hillary af atvinnurekstri einskorðast við rekstur hennar og annarra lögfræðinga á hinni frægu Rose lögmannsstofu. Þar flæktust hún og Bill Clinton, eiginmaður hennar, í hið margslungna Whitewater mál en það snerist aðallega um þátt hjónanna í gjaldþroti og bankahneyksli vegna byggingarframkvæmda. Samkvæmt rannsókn óháðs saksóknara fékk tengdafaðir náins vinar hjónanna að taka út hundruð þúsunda dollara út af bankareikningi fasteignafélags þótt gjaldþrot þess væri yfirvofandi. Hjónin fjárfestu í byggingafélaginu og margir sem tengjast málinu fullyrða að hjónin hafi beitt óeðlilegum þrýstingi í bankakerfinu til að útvega félaginu lán og síðan reynt að hylma yfir þátt sinn í málinu með meinsæri.
Í fréttum í gærkvöldi var sagt frá því að miðstjórn Alþýðubandalagsins telji að þeir vinstri menn sem buðu fram í fylkingu í vor eigi að stofna stjórnmálaflokk sem fyrst. Af því má ætla að fylkingin sé ekki stjórnmálaflokkur nú þegar og geti þar af leiðandi ekki nýtt sér ákvæði í lögum um tekjuskatt sem heimilar fyrirtækjum að draga framlög til stjórnmálaflokka frá rekstrartekjum eins og hver önnur gjöld. Áður hafa ýmsir þingmenn fylkingarinnar vitnað um að hún er ekki stjórnmálaflokkur og einnig Ágúst Einarsson prófessor í viðskiptafræði, eins og rakið hefur verið hér í Vef-Þjóðviljanum að undanförnu. Það er svo eitt enn sem bendir til þess að fylkingin sé ekki stjórnmálaflokkur. Talsmenn fylkingarinnar hafa lagt mikið upp úr því í orði að fjármál stjórnmálaflokka séu til sýnis fyrir hvern sem er en ekki minnist Vef-Þjóðviljinn þess að hafa séð nokkur bókhaldsgögn frá fylkingunni. Það ber því allt að sama brunni: Þau fyrirtæki sem kunna að hafa styrkt fylkinguna fjárhagslega fram að þessu geta ekki dregið framlögin frá rekstrartekjum.