Helgarsprokið 10. október 1999

283. tbl. 3. árg.

Í Reykjavíkurbréfi sunnudagsblaðs Morgunblaðsins er merkilegur rökstuðningur fyrir því að ríkið taki fé af almenningi og opinberir starfsmenn og pólítíkusar úthluti þessu fé til útvalinna listamanna og byggi tónlistarhús fyrir fjögurþúsund milljónir. Meðal þess sem höfundur bréfsins býður upp á sem rök fyrir þessu er að furstar í Evrópu hafi fyrr á öldum tekið skatta af fólki og styrkt tónlistarmenn. Skemmtanir aðalsins í Evrópu fyrr á öldum á kostnað almennings sem bjó við afar kröpp kjör eru í dag notaðar sem réttlæting fyrir því að byggt verði tónlistarhús á Íslandi! „Listastarfsemi hefur ævinlega notið mikils stuðnings hins opinbera, ekki síst meðan kóngar og furstar voru oddvitar samfélagsins, enda höfðu þeir forystu um margvíslegar byggingar til listastarfsemi og þá lögðu þeir ekki síður fram verulegan hlut skattgreiðenda í því skyni að styðja við bakið á listamönnum og starfsemi þeirra“, segir í bréfinu og svo er bætt við:  „Það voru skattgreiðendur þess tíma sem stóðu straum af listrænni uppbyggingu í Evrópu og líklega sá enginn eftir því fjármagni sem til þeirrar starfsemi rann“. Vef-Þjóðviljinn vissi að stuðningsmenn sósíalisma í menningarmálum væru komnir í málefnalegt þrot en hann óraði ekki fyrir því að þeir væru svo aðframkomnir að einræðisherrar miðalda yrðu dregnir upp til vitnis um hve æskilegt það er að stjórnarherrar hvers tíma ákveði hvaða listsköpun lifir og hver ekki. Í hvaða veruleika búa þeir sem halda slíku fram?

En það er ekki nóg með að höfundur Reykjavíkurbréfsins telji sig vita að skattgreiðendur á miðöldum hafi verið ánægðir þegar skattheimtumenn furstanna hirtu hluta af uppskerunni, matarpeninga heimilsins eða það fé sem heimilisfólkið ætlaði að nýta til kaupa á hljóðfæri, striga og litum eða pappír til að rita á. Höfundurinn telur sig einnig vita hvað fólk í dag hugsar og hvað það vill. Hann fullyrðir að almenningur vilji tónlistarhús. Hvað kemur þá í veg fyrir að almenningur leggi fé í tónlistarhúsið? Hafa ekki starfað samtök um bygginguna árum saman en almenningur ekki sýnt því áhuga að leggja fram fé til samtakanna? Er það ekki skýr niðurstaða í málinu? Almenningur vill ekki leggja þetta fé fram. Hann hefur átt kost á því árum saman með því að styrkja samtök um byggingu tónlistarhússins en ekki gert það. Svo einfalt er það nú. Það þarf afar sérstæða túlkun á þessu til að komast að þeirri niðurstöðu að almenningur vilji endilega leggja fé í byggingu tónlistarhúss. Samtökum um byggingu tónlistarhúss ber hins vegar að þakka þessa áralöngu könnun á hug almennings til þess að reisa tónlistarhús fyrir 4 milljarða.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins  heldur líka ýmsu fram sem er beinlínis ósatt. Hann segir til dæmis: „Það hefur enginn amast við því að sundlaugar og íþróttahús séu byggð af almannafé, svo nauðsynlegur þáttur í samtímalífi sem slík athvörf eru.“ Hefur umræðan um skuldsetningu sveitarfélaga vegna bygginga af þessu tagi farið framhjá Morgunblaðinu? Mörg þeirra hafa reist sér hurðarás um öxl með byggingu íþróttamannvirkja. Var það ekki í fréttum fyrir nokkrum dögum að eigandi íþróttahúss í einkaeign hefði kvartað yfir óréttlátri samkeppni frá íþróttahúsum sveitarfélaganna sem niðurgreiða rekstur þeirra? Var það ekki líka í fréttum að Samkeppnisstofnun hefði sent frá sér athugasemd um málið? Hefur Morgunblaðið aldrei heyrt þá sem greiða fyrir sína íþróttaiðkun sjálfir á einkareknum líkamsræktarstöðvum spyrja hvort það sé eðlilegt að hið opinbera niðurgreiði íþróttaiðkun þeirra sem stunda sund eða boltaíþróttir? Er rétt að mismuna fólki þannig? Aftur spyr Vef-Þjóðviljinn að því í hvaða fílabeinsturni höfundur Reykjavíkurbréfsins situr.

Eins og alkunna er hefur Morgunblaðið gert tilraunir til að komast inn á ljósvakamarkaðinn. Þær hafa runnið út í sandinn. Höfundur Reykjavíkurbréfsins vandar þeim sem staðið hafa sig betur á þessum markaði því ekki kveðjurnar. Um þá menningarsnauðu plebba hefur hann eftirfarandi orð: „Það eru margar ljósvakastöðvar á Íslandi nú um stundir. Þær hafa vaxið eins og mý á mykjuhaug. Þangað er ekki alltaf hægt að sækja mikla andlega næringu, þar eru ekki endilega þau verðmæti sem mikilvægust hafa þótt“. Vef-Þjóðviljinn trúir því þó vart að misheppnaðar tilraunir Morgunblaðsins nægi til að skýra þá vandlætingu og það yfirlæti sem þarna kemur fram. Höfundurinn telur sig greinilega hafa burði til að skilgreina „mikla andlega næringu“? Hann veit hvaða verðmæti fólki þykja mikilvægust. En hvað hér væri dásamlegt um að litast ef höfundur Reykjavíkurbréfsins væri fursti eða konungur yfir Íslandi.