Mánudagur 27. september 1999

270. tbl. 3. árg.

Fyrir nokkrum árum átti sú skoðun mjög undir högg að sækja að ríkið ætti að draga sig í hlé í atvinnurekstri. Til dæmis var lítið fylgi við það á Alþingi að ríkisbankarnir væru einkavæddir. Nú er öldin önnur og aðeins einn og einn vinstrigrænn sem vill halda í pólítíska skömmtunarkerfið í rekstri fjármálafyrirtækja. En einkavæðingin virðist halda áfram að vera umdeild þótt sátt sé um að einkavæða! Það ætti þó ekki að koma á óvart þar sem það eru stjórnmálamenn sem sjá um framkvæmdina. Með einkavæðingu er heldur ekki verið að sækjast eftir framkvæmdinni sjálfri heldur afleiðingunum af henni. Þessar afleiðingar eru aukið svigrúm einstaklinga í atvinnurekstri, að hagkvæmni leysir pólítískan geðþótta af hólmi sem úrslitaatriði um afdrif fyrirtækja og skattgreiðendur þurfa ekki lengur að hlaupa undir bagga með rekstrinum.

Nýverið bauð ríkið landsmönnum öllum að skrá sig fyrir hlut úr litlum hlut í þremur ríkisbönkum með svonefndri áskrift. Viðtökurnar voru afar góðar og stór hluti landsmanna tók þátt í kaupunum þótt margir kysu að selja hlutinn sinn þá þegar eða jafnvel fyrirfram. En það var þeirra val. Í ljósi þess hve viðtökurnar við þessu fyrirkomulagi voru góðar hlýtur það að koma til greina að halda áfram á sömu braut þegar stærri hlutir verða seldir úr Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Þeir sem hafa áhyggjur af því að engir kjölfestufjárfestar verði til staðar í bönkunum eftir slíka áskriftarsölu geta varla horft framhjá reynslunni sem fengin er af þessari aðferð. Stórir fjárfestar hafa verið ótrúlega fljótir að kaupa minni fjárfesta út í FBA, Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Því má heldur ekki gleyma að þeir sem eru líklegastir til að kaupa stóra hluti í bönkunum í útboði eru lífeyrissjóðirnir en þeir geta vart talist kjölfestufjárfestar þar sem í þeim sjálfum eru engir kjölfestufjárfestar heldur heilar starfstéttir sem smalað hefur verið í sjóðina af atvinnu- og verkalýðsrekendum sem sitja sjálfir í stjórnum þeirra.

Nú hefur nýtt Jafnréttisráð verið skipað. Í því sitja sjö manns. Sex konur. Einn karl. Það blasir væntanlega við hver verður fyrsta kæran sem hið nýja Jafnréttisráð fær til umfjöllunar.