Þriðjudagur 28. september 1999

271. tbl. 3. árg.

Ríkisútvarpið greindi frá því um helgina að hið opinbera hyggði á stóraukið eftirlit með þeim erlendu nektardansmeyjum sem nú eru starfandi hér á landi. Sú skýring var gefin á þessu, að undanfarið hefðu nokkrar úr þeirra hópi verið „bendlaðar við fíkniefnamál“. Ekki bar á því að fréttamenn sæu nokkuð athugavert við að ein starfsstétt eigi nú að sæta sérstöku eftirliti af slíkum sökum.

En fordómarnir sem það fólk, sem sinnir nektardansi, má þola eru líka óvenjulegir. Ætli menn tækju því þegjandi ef aðrar stéttir yrðu teknar fyrir með þessum hætti? Ef marka má ítrekaðar fréttir ákveðinna fjölmiðla situr nú kjötsendill í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa haft fíkniefni undir höndum og jafnvel ætlað að selja þau einhverjum sem vildi kaupa. Ef þetta er rétt og kjötsendillinn verður í fyllingu tímans dæmdur annars staðar en í fjölmiðlum, ætli menn muni þá hafa sérstakt eftirlit með kjötsendlum? Eða ef tveir pípulagningamenn eða þrír rafvirkjar verða einhvern tímann teknir fyrir eitthvað? Ætli fréttamenn tækju því þá eins og hverjum öðrum tíðindum að rafvirkja- og pípulagningamannastéttin yrði sett undir smásjána?

Það eru fleiri stjórnvöld en þau íslensku sem státa af „fjölskyldustefnu“ og „manneldismarkmiðum“. Í fréttum á Vísi í gær var sagt frá því að Kínverjað hefðu sparað sér að brauðfæða 338 milljónir munna með svonefndri fjölskyldustefnu sinni sem heimilar fólki aðeins að eignast eitt barn. Ef stefnunni hefði ekki verið hrint í framkvæmd væru Kínverjar 338 milljónum fleiri, að mati stjónvalda í Beijing. Þetta viðhorf stjórnvalda í Beijing er það sama og margra umhverfisverndarsamtaka og alþjóðastofnana sem telja að hvert mannslíf sem kviknar til viðbótar á Jörðinni sé til bölvunar. Kínverjar hafa reiknað út að þeir hafi sparað 773,2 milljarða dollara í ungbarnaeftirlit með fjölskyldustefnu sinni.

Umhverfisverndarsinnar og starfsmenn alþjóðastofnana fyllast líkt og kínversk stjórnvöld skelfingu í hvert sinn sem íbúafjöldi lands eykst um þúsund og reikna hve mörg tré muni falla í salernispappír, hve marga grjónasekki þurfi til viðbótar og hve marga vatnslítra. Þeir gera ekki ráð fyrir að nýir einstaklingar muni leggja nokkuð af mörkum. Enginn þeirra muni vinna við skógrækt eða þróa nýjar aðferðir við ræktun og öflun drykkjarvatns. Ekki er gert ráð fyrir að nýir einstaklingar muni taka þátt í þeirri verkaskiptingu sem á sér þegar stað eða bæta við tækniþróunina.
En burt séð frá þessum hagrænu vangaveltum, þá má nefna að það hefði einhvern tímann þótt einkennilegt viðhorf að þegar barn fæðist hljóti það að boða alveg sérstaka ógæfu.