Helgarsprokið 26. september 1999

269. tbl. 3. árg.

Samkeppnisyfirvöld eru í sviðsljósinu þessa dagana. Fyrir skömmu veitti forsætisráðherra þeim ákúru fyrir að vera ekki samkvæm sjálfum sér  með því að taka ekki á málefnum matvörumarkaðarins á sama hátt og þau gera varðandi fjarskiptamarkaðinn. Í þessari viku komust svo samkeppnisyfirvöld í fréttirnar vegna harkalegra aðgerða þeirra í garð grænmetisdreifingaraðila en yfirvöldin grunuðu þá um að hafa brotið gegn samkeppnislögum um bann við samráði um álagningu og verð. Af orðum forsætisráðherrra á dögunum má ekki ráða annað en að hann sé sáttur við þá stöðu sem hinum svokölluðu samkeppnismálum er mörkuð í lögum og fylgja skuli lögunum betur eftir. Það skuli sem sagt vera til stofnun sem ætlað sé að fylgjast með og „efla virka samkeppni á markaðnum og stuðla þar með að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins“ svo sem þetta er orðað í 1. gr. samkeppnislaga.

Við þessa hugmyndafræði er ýmislegt að athuga. Misskilnings hefur gætt við notkun hugtaksins samkeppni. Fylgismenn samkeppnislaga hafa skilgreint nokkuð sem þeir kalla fullkomna samkeppni þar sem framleiðendur reyna að fullnægja þörf neytandans með því að framleiða það sem neytandinn vill á sem lægstu verði, sem er þá sem næst framleiðslukostnaðinum. Í þessari fullkomnu samkeppni eru margir kaupendur og margir seljendur, allir svo litlir að breyting framleiðanda á framleiðslumagni hefur ekki áhrif á verð. Framleiðendurnir framleiða allir samkynja vörur. Fullkomið gagnsæi ríkir á þann hátt að neytendur hafa fullkomnar upplýsingar um markaðinn. En á þessi sýn á markaðinn sér stoð í raunveruleikanum? Á þessum markaði fer í raun engin samkeppni fram heldur virðast allir vera að gera það sama.

Samkeppni er hins vegar ferli uppgötvana og aðlögunar í opnu markaðskerfi þar sem stöðug óvissa ríkir og menn eru látlaust að prófa nýjar vörur og aðferðir við að koma þeim á markað. Ólíkt því sem fylgismenn samkeppnislaga halda fram þá getur engin búið yfir fullkominni þekkingu á markaðnum. Hvernig á til dæmis að skilgreina það þegar fyrirtæki lækkar verð á vöru sinni. Er það samkeppni eða tilraun til einokunar? Hafa ber í huga að markaðshlutdeild fyrirtækis segir ekkert til um völd þess á markaðanum. Markaðshlutdeildin endurspeglar einungis hæfni fyrirtækisins til að sinna þörfum neytenda. Einokun verður aðeins veitt með lögum, lagalegum höftum hvers konar. Þannig mætti skýra hugsanlegt samráð grænmetisdreifingaraðila á íslenskum markaði sem tilburði aðila sem veitt hefur verið einokunaraðstaða með lögum sem hefta innflutning á tiltekinni vöru og koma þannig í veg fyrir samkeppni með því að loka markaðnum. Það er því hjákátlegt að horfa upp á starf einnar opinberrar stofnunarinnar, samkeppnisyfirvalda, sem felst í því að leiðrétta mistök annarrar opinberrar stofnunar, Alþingis. Arthur Shenfield orðaði það þannig í litlu riti sínu Myth and Reality in Anti-Trust að einokun sé komið á og samkeppni hindruð með hendi risans en með hendi dvergsins sé reynt að koma samkeppninni aftur á.

Adam Smith
Adam Smith

Í Auðlegð þjóðanna kemst Adam Smith svo að orði að menn úr sömu grein atvinnulífsins komi varla saman, jafnvel þó það sé einungi til að skemmta sér, án þess að það leiði til einhvers konar samsæris gegn almenningi eða leynilegs samkomulags um verðhækkanir. Þessi ummæli hafa óspart verið notuð af fylgismönnum samkeppnisreglna sem þannig hafa viljað telja Smith skoðanabróður sinn. Hafa m.a. höfundar Skýrslu Samkeppnisráðs um stjórnunar- og eignatengsl, leitt af þessum orðum Smiths þá almennu skoðun að samkeppnisreglur séu nauðsynlegar og hafi að gegna þýðingarmiklu hlutverki. Næsta setning í Auðlegð þjóðanna hljóðar hins vegar á þá leið að það sé ógjörningur að koma í veg fyrir slíkar samkomur með   lagasetningu. Slíkri lagasetningu væri ekki hægt að framfylgja án þess að ganga gegn frelsi og réttlæti.

Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort þessi ummæli Smiths hafi vísvitandi verið slitin úr samhengi. Sé svo hlýtur það að koma til meðferðar hjá þeirri deild samkeppnisstofnunar sem fæst við villandi upplýsingar í auglýsinga- og kynningaraefni fyrirtækja og stofnana.