Miðvikudagur 15. september 1999

258. tbl. 3. árg.

sport.gif (1307 bytes)
sport.gif (1307 bytes)

Eiga stórfyrirtæki sem sjá fólki fyrir tómstundum og afþreyingu að njóta opinberra styrkja í samkeppni við smærri fyrirtæki á sama sviði? Líklega mæla fáir slíku bót og þegar svonefnd samkeppnisyfirvöld taka á slíkum málum er fjallað ítarlega um þau í fjölmiðlum – svona yfirleitt. En þannig vill til að sveitarfélög leggja háar fjárhæðir í byggingu íþróttahúsa á vegum íþróttafélaga á meðan aðrir þurfa að greiða allan kostnað sjálfir við íþróttaiðkun sína. Þannig styrkir Reykjavíkurborg íþróttafélög í borginni, sem geta ekki talist annað en stórfyrirtæki á þessu sviði, um allt að 85% af byggingarkostnaði íþróttahúsa, veitir þeim rekstrarstyrki og fasteignagjöld eru ekki innheimt. Í sömu borg starfa íþrótta- og líkamsræktarfyrirtæki sem standa sjálf undir þeim kostnaði sem til fellur við byggingaframkvæmdir og rekstur og greiða skatta til borgarinnar. Íþróttafélögin geta í krafti styrkjanna frá borginni niðurgreitt þá þjónustu sem þau bjóða í samkeppni við fyrirtækin.

Eigandi íþróttahúss við Stórhöfða í Reykjavík kvartaði yfir þessu við samkeppnisráð og ráðið álítur að Reykjavíkurborg verði að jafna stöðu þessara aðila og endurskoða styrkjakerfi sitt. Nær ekkert hefur heyrst um þetta álit í fjölmiðlum sem fara þó yfirleitt hamförum þegar eitthvað misjafnt tengist stórfyrirtækjum á borð við íþróttahreyfinguna og samkeppnisráðið hefur sent frá sér slíkt álit um málið.

Samkeppnisráð telur tvo kosti í stöðunni: Annars vegar að takmarka útleiguheimildir íþróttafélaga til óskyldra aðila á þeim íþróttamannvirkjum sem hlotið hafa byggingarstyrk. Hins vegar að heimila slíka útleigu en skylda íþróttafélögin til að taka tillit til sama kostnaðar og keppinautarnir sem ekki hafa hlotið styrk frá borginni. Hvorug leiðin er þó vænleg og hvorug kemur í veg fyrir mismunun. Hverjir eru óskyldir íþróttafélagi en vilja taka íþróttahús til leigu? Og hver á fylgjast með því hver er óskyldur íþróttafélaginu og hver ekki? Fyrri leiðin er því óframkvæmanleg nema í fantasíu samkeppnisráðs. Hin leiðin sem ráðið leggur til er einnig torsótt. Keppinautum íþróttafélaganna gengur vafalaust misjafnlega að halda kostnaði niður eins og gengur í atvinnurekstri. Við hvað á þá að miða? Hvorug leiðin leiðréttir svo þá mismunun sem styrkir borgarinnar til íþróttafélaganna eru. Það eru til skattgreiðendur í borginni sem stunda engar íþróttir, finnast íþróttir þrautleiðinlegar eða geta hreinlega ekki stundað íþróttir vegna veikinda, öldrunar eða annarra ástæðna. Hvers vegna á þetta fólk að niðurgreiða tómstundagamanið fyrir íþróttafólk?