Fimmtudagur 16. september 1999

259. tbl. 3. árg.

Mál bandaríska ríkisins gegn Microsoft er til umfjöllunar hjá National Taxpayers Union Foundation í Bandaríkjunum. Þar á bæ eru menn ekki nema hóflega hrifnir af aðgerðum hins opinbera gegn þessu einkafyrirtæki og telja að þær komi almenningi síst vel. Þeir benda t.d. á að sú „einokunarstaða“ sem Microsoft er stundum sagt hafa á markaðnum hafi ekki leitt til hærra verðs. Þvert á móti hafi verð á vörum fyrirtækisins lækkað og það jafnvel mun meira en hjá ákveðnum keppinautum. Skýringin á þessu er væntanlega sú að Microsoft hefur í raun ekki einokunaraðstöðu heldur þarf að keppa við aðrar vörur á markaðnum og hafa í huga mögulega keppinauta sem enn eru ekki komnir fram en munu sýna sig ef aðstæður leyfa. Microsoft er auk þess í þeirri stöðu að nýjar vörur fyrirtækisins þurfa að keppa við eldri vörur þess og eykur það á samkeppnina.

Einokunarhræðsla eins og sú sem sýnir sig í málinu gegn Microsoft er ekki ný í Bandaríkjunum. Árið 1969 fékk IBM á sig ásakanir frá dómsmálaráðuneytinu sem sagði fyrirtækið hafa einokunarstöðu. Fallið var frá málinu árið 1982 og nokkrum árum síðar var flestum orðið ljóst að áhyggjurnar höfðu verið ástæðulausar og yfirburðastaða IBM hvarf vegna nýrrar tækni og keppinauta. Svipaða sögu er að segja um reiðhjólaframleiðandann Schwinn sem fékk á sig auðhringakæru árið 1967 en var orðinn gjaldþrota árið 1992 vegna erlendrar samkeppni. Ámóta dæmi eru til úr bílaframleiðslu, raftækjaframleiðslu, flugþjónustu og svo mætti áfram telja. Þessi afskipti hins opinbera hafa því frekar haft þau áhrif að draga úr þrótti fyrirtækja og þar með atvinnulífsins en að bæta eða auka samkeppni.

Í ljósi þess hver reynslan hefur verið af slíkum inngripum hins opinbera í frjálsa markaðsstarfsemi er lítið gleðiefni að fylgjast með umræðum síðustu daga um matvælamarkaðinn hér á landi. Forsætisráðherra hefur lýst áhyggjum sínum af því að stór hluti þessa markaðar sé í höndum fárra aðila og mátti skilja hann svo að þetta hækkaði matvælaverð hér á landi. Nú er út af fyrir sig áhyggjuefni ef forsætisráðherra vill auka afskipti hins opinbera af starfsemi einkafyrirtækja og viðskiptum þeirra við almenning, en þó voru orð talsmanns Samkeppnisstofnunar ekki síður til þess fallin að fá menn til að hugleiða hvort slík afskipti eiga rétt á sér.

Talsmaðurinn sagði orðrétt í útvarpsviðtali fyrr í vikunni: „Það er enginn óhultur fyrir Samkeppnisstofnun.“ Þarna hitti talsmaðurinn naglann á höfuðið. Það er enginn, hvorki fyrirtæki né einstaklingar, óhultur fyrir Samkeppnisstofnun. Stofnunin mun ekki tryggja „eðlilega“ eða „rétta“ markaðsstarfsemi og hún mun ekki tryggja lágt vöruverð. Ekki frekar en fyrirrennari hennar, Verðlagsstofnun. Frelsi í viðskiptum og opið hagkerfi eru það eina sem dugar til að ná slíkum markmiðum.