Þriðjudagur 14. september 1999

257. tbl. 3. árg.

Fjölmiðlar fjalla sjaldan um hina miklu fátækt, sem hrjáir meginþorra Afríkubúa. Þegar það gerist er niðurstaða fréttamanna oftar en ekki sú að vestrænar ríkisstjórnir þurfi að auka fjárveitingar í svokölluð þróunarverkefni en flest þeirra eiga það sameiginlegt að peningarnir lenda að mestu leyti í vasa spilltra stjórnarherra og styrkja stöðu þeirra. Í gær var fjallað um heilbrigðisvandamál og fátækt Afríkubúa í sjónvarpsfréttum og var m.a. rætt við unga móður nokkurra barna. Kom fram að hún gæti ekki séð þeim öllum farborða enda ætti hún þess ekki kost að afla sér tekna með öðrum hætti en þeim að selja grænmeti við afar lágu verði.

Í viðtalinu endurspeglaðist þannig ósýnileg afleiðing landbúnaðarstefnu Vesturlanda en í henni felst að  innflutningur grænmetis og annarra landbúnaðarafurða er ótrúlega miklum takmörkunum háður. Afleiðingin er ekki eingöngu sú að Íslendingar og flestir aðrir Vesturlandabúar eru sviptir þeim sjálfsagða rétti að kaupa landbúnaðarvörur af þeim sem þeim sýnist hverju sinni. Fjölmargir Afríkubúar fá heldur ekki tækifæri til að yrkja frjósama jörð álfunnar til fulls og flytja afraksturinn á hina ríku markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Að þessu leyti má segja að mikill sannleikur sé til í þeirri gömlu tuggu að hinir ríku Norðurálfubúar haldi Afríku í fátæktarfjötrum eins og hin unga móðir er átakanlegt dæmi um.

Sjálfsbjörg samtök fatlaðra hefur sent ríkisstjórninni ábendingu þess efnis að skattar á bíla og bensín bitni á félagsmönnum þar sem bifreiðar séu þeim afar mikilvægar. Þeim sem ekki búa við fötlun þykir mjög erfitt að vera án bíls í dagsins amstri og það er vafalaust nær ómögulegt fyrir fatlaða að sinna erindum sínum án þess að hafa bíl til umráða. Bifreiða- og bensínskattar bitna því ekki aðeins á forstjórunum á nýju jeppunum heldur einnig á öðrum sem geta ekki án bílsins verið; þeim sem fara langa leið til vinnu, foreldrum sem þurfa að koma börnum sínum í og úr skóla og almennt þeim sem þykir óskemmtilegt að kynnast íslensku vetrarslagviðri of náið.