Laugardagur 28. ágúst 1999

240. tbl. 3. árg.

Framlag borgaryfirvalda til menntunar barna sem sækja einkaskóla var hækkað lítillega á dögunum. Er það nú um 180 þúsund krónur á barn en opinberu grunnskólarnir fá um 240 þúsund krónur fyrir hvert barn sem í þeim situr. Í Morgunblaðinu var haft eftir Sigrúnu Magnúsdóttur borgarfulltrúa R-listans að henni fyndist fráleitt að einkaskólarnir sætu við sama borð og þeir opinberu hvað þessa fjárhæð varðaði. Sagði hún nú það bara sjálfsagt að foreldrar sem kjósa einkaskóla fyrir börnin sín borgi eitthvað fyrir það sjálfir. Menn geta auðveldlega tekið undir það sjónarmið Sigrúnar að menn borgi sjálfir fyrir það sem þeir nota. Foreldrar með börn í einkaskólum, svo ekki sé nú minnst á hljóðlátan hóp manna sem ekki eru foreldrar, tækju það sjálfsagt heldur ekki nærri sér ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þeir eru líka að borga reikning foreldra sem senda börn sín í bæjarskólana. Sigrún hlýtur að ætla að veita afslátt á útsvarinu til handa þeim sem borga beint sína þjónustu.