Helgarsprokið 29. ágúst 1999

241. tbl. 3. árg.

Það er að bera í bakkafullan lækinn að tala um Eyjabakka en umræðan snýst einmitt um hvort þar eigi að vera lækur eða lón. Þeir sem vilja lón fullyrða að einhver eigi hálendið en ekki sérhver og að rökin séu þeirra megin en tilfinningarnar lækjarmegin. Þessvegna á að virkja og búa til lón. Þeir sem vilja læk fullyrða að meta þurfi umhverfi lækjar og lóns samkvæmt lögum, að þjóðarsáttin sé í húfi, sérhver eigi hálendið en ekki einhver og síðast en ekki síst að náttúran eigi að njóta vafans. Þess vegna eigi að vera lækur.

Vef-Þjóðviljinn hefur ekki tekið þátt í umræðunni til þessa, annarsvegar af umhyggju fyrir lesendum sínum og hinsvegar vegna þess að spurningin hvort hagkvæmt sé að sökkva Eyjabökkum undir miðlunarlón eða ekki er ekki gild. Orðið hagkvæmni innifelur verðmat og þar sem ekkert verðmat hefur farið fram þá veit enginn neitt um hagkvæmni Eyjabakka sem miðlunarlóns eða griðastaðar gæsa. Enginn veit nefnilega hvað Eyjabakkar kosta því enginn hefur keypt þá og þaðan af síður nokkur selt þá.

Ef Eyjabakkar væru boðnir hæstbjóðanda til kaups þá yrði úr því skorið hvort væri hagkvæmara að hafa þar læk eða lón og auk þess fengist þannig raunverulegt umhverfismat um leið. Það er, hversu mikils menn meta lækinn umfram lónið og öfugt.

Allt tal um að lækjarmenn séu á valdi tilfinningana en að lónsmenn séu jarðbundnir, rökfastir raunsæismenn er hjákátlegt í ljósi þess að lónsmenn eru einmitt fulltrúar langdýrustu tilfinningasemi sem skattgreiðendur þessa lands hafa mátt þola: byggðastefnunnar. Ef byggðastefnan er ekki tilfinningaþrungin þá er Húsið á sléttunni Nýjasta tækni og vísindi.

Það er svo aftur athyglisvert að stór hluti þess fólks sem finnst gaman að nota orðasambandið „náttúran á að njóta vafans“ skuli einmitt vera á móti nektardansstöðum í henni Reykjavík!