Föstudagur 27. ágúst 1999

239. tbl. 3. árg.

Haustið 1989 var mótmælaganga í Leipzig í Austur-Þýskalandi sem var fyrsta merkið um að stjórn kommúnista væri að niðurlotum komin. Skömmu síðar hrundi múrinn og Þýskaland var sameinað á ný. Við sameininguna tóku gildi vestur-þýsk lög um afgreiðslutíma verslana sem banna verslun á sunnudögum. Íbúar í Leipzig, þar sem atvinnuleysi er nú um 20%, hafa ekki verið sáttir við þetta bann og nýlega tók borgarstjóri Leipzig til sinna ráða og nýtti glufu í lögunum sem leyfa járnbrautarstöðvum að hafa búðir opnar á sunnudögum og lét breyta brautarstöð í verslunarkjarna. Önnur smuga í lögunum gerir ráð fyrir að verslanir sem einkum sinna ferðamönnum megi einnig vera opnar á sunnudögum. Borgarstjórinn lét því lýsa allan miðbæinn ferðamannasvæði. Fyrr en varði höfðu Dresden, Halle, og fleiri borgir í austurhluta landsins farið að dæmi Leipzig og opnað búðir sínar fyrir almenningi á sunnudögum undir því yfirskini að varningurinn sem þær hafa á boðstólum væri áhugaverður fyrir ferðamenn.

Í Berlín fóru deildaverslanir einnig að hafa opið á sunnudögum nýlega. Kaufhof deilaverslunin við Alexanderplatz er í þeirra hópi og nú koma um 80 þúsund manns til að versla þar á sunnudögum og allir fá lítinn miða á það sem þeir kaup sem á stendur „Minjagripur frá Berlín“. Borgaryfirvöld í Berlín voru ekki hrifin af þessu framtaki og hótuðu Kaufhof hárri sekt en Kaufhof sáu við því og hafa áfram opið en nú á þeirri forsendu að þeim sé heimilt að hafa opið ef sérstakur viðburður fer fram í búðinni á sama tíma. Því eru hljómsveitir, trúðar og önnur skemmtiatriði hjá Kaufhof alla sunnudaga.