Fimmtudagur 26. ágúst 1999

238. tbl. 3. árg.

Ríkisvaldið er stærsti fíkniefnasali landsins og hefur mikinn fjárhagslegan hag af því að fólk eigi reglulega viðskipti við starfsmenn þess í ljósbláu fangavarðaskyrtunum hjá ÁTVR. Á sama tíma rekur það áfengisvarnarráð sem reynir að halda flöskunni frá fólki eða öllu heldur fólkinu frá flöskunni. Áfengisvarnarráð er rekið fyrir innkomuna í fíkniefnasölu ríkisins. Nú hefur ráðið lýst yfir áhyggjum vegna þess að sala hjá ÁTVR á síðasta ári var meiri en nokkru sinni fyrr. Til dæmis er nefnt að hver Íslendingur drekki 20% meira alkóhól nú en árin áður en bjórinn var leyfður. Þetta er samkvæmt sölutölum ÁTVR en eins og allir vita var miklu magni bjórs smyglað til landsins áður en ríkið leyfði mönnum náðarsamlegast að drekka veikustu áfengistegundina. Fyrir daga löglegs bjórs var einnig drukkið mun meira af sterku víni og þar með einnig landa. Ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir því að þegar fólk færir sig úr sterku áfengi yfir í vín að drykkjan dreifist meira og færri verði öskrandi fullir. Það er því erfitt að fullyrða nokkuð um drykkju landsmanna út frá sölutölum ÁTVR, hvorki um magnið né gæðin.

Í áðurnefndu viðtali í Morgunblaðinu sl. sunnudag fellur Rögnvaldur Hannesson í rökfræðilega gildru sem búast hefði mátt við að prófessor í hagfræði ætti auðvelt með að forðast. Ekki síst þar sem viðfangsefnið er hagfræði. Hann segir m.a.: „Það á að vera pláss fyrir aukakostnað af þessu tagi… (auðlindaskatt). Það sýnir sig kannski best í því að útgerðarmenn eru að kaupa kvóta hver af öðrum. Þeir hafa greinilega efni á að borga fyrir kvótann….“ Rögnvaldur telur með öðrum orðum að þar sem veiðiheimildir eru keyptar og seldar sé augljóslega nóg af fé í sjávarútvegi, nægt svigrúm fyrir sérstaka nýja skatta. Rögnvaldi virðist yfirsjást að þegar viðskiptaaðilar kaupa eða leigja eitthvað hvor af öðrum þá helst féð meðal þeirra sjálfra en gufar ekki upp. Sá sem selur fær eitthvað fyrir sinn snúð, það er ekki bara að sá sem kaupir láti eitthvað af hendi. Viðskipti með veiðiheimildir hafa jákvæð áhrif á sjávarútveg og leiða ekki til útstreymis fjár úr greininni. Sérstakur skattur á heimildirnar leiðir hins vegar fé út úr greininni og hefur neikvæð áhrif á hana. Munurinn er talsverður. Kaup og sala eru sjálfsprottin samskipti milli aðila sem vilja vinna að eigin hag. Skyldugreidd gjöld á borð við skatta lúta öðrum lögmálum.

Hið opinbera getur þannig ekki leyst til sín stórar upphæðir frá einhverjum ákveðnum þætti hagkerfisins á þeirri forsendu að þar eigi sér stað blómleg viðskipti, og búist síðan við að lítið sem ekkert breytist við aðgerðina. Þetta er svipað og að segja að þar sem matur er keyptur og seldur á Íslandi í stórum stíl, sé stjórnvöldum í lófa lagið að hækka skatta á matvörur um nokkra milljarða án þess að matvörumarkaðurinn láti nokkuð á sjá.