Miðvikudagur 25. ágúst 1999

237. tbl. 3. árg.

Það er gert ráð fyrir aukningu á öllum sviðum ríkisútgjalda á næsta ári, samkvæmt þeim fréttum sem berast af fjárlagagerðinni fyrir næsta ár. Á sama tíma messa stjórnarherrarnir yfir landslýð um að gæta sín á góðærinu og eyða ekki og spenna. Skatttekjur ríkisins af bensíni eru látnar rjúka upp með heimsmarkaðsverði á eldsneyti og magna upp hækkunina. Þegar fólk kvartar yfir því að þurfa að greiða  tæpar 3.000 krónur í skatt af 4.000 bensínáfyllingu á heimilisbílinn er því bara sagt að ef það fengi að hafa þessa peninga í vasanum færu þeir í aukna eyðslu. Það sé hins vegar allt annað mál að ríkið taki þessa peninga og auki eyðslu á öllum sviðum. En það merkilega er að nú mælist ríkisstjórnin með metfylgi, hún eykur það við sig eins og útgjöldin. Það kann þó að skýrast af því að þeir sem eru andvígir eyðslustefnu stjórnarinnar eiga engan annan kost og þeir vinstrimenn sem trúa á þá kenningu að aðeins ríkið megi eyða meira í góðærinu hljóta að halla sér að þessari stjórn – stjórn sem lætur það berast að hún stefni að aukningu útgjalda á öllum sviðum. Er nokkur grundvöllur fyrir Fylkinguna og Vinstri græna lengur?

Umhverfisverndarsamtökin World Wide Fund for Nature hafa lýst yfir andstöðu við Fljótsdalsvirkjun. Hafa þau hnyklað brýnnar framan í norska ríkisfyrirtækið Norsk Hydro sem ætlar að byggja álver á Íslandi á kaupa rafmagn af íslenska ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun. Í hádegisfréttum í gær var rætt við talsmann samtakanna sem var mjög æstur yfir því að hinir svonefndu Eyjabakkar færu á kaf og líkti þeim við Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunum. Eitthvað vafðist þó fyrir honum að útskýra betur í hverju þessi jöfnuður milli Eyjabakka og Yellowstone liggur. Við frekari spurningar fréttamanns kom þó í ljós að Eyjabakkar og Yellowstone eiga það sameiginlegt að þessi einlægi baráttumaður hefur hvorugan staðinn heimsótt.