Þriðjudagur 24. ágúst 1999

236. tbl. 3. árg.

Vef-Þjóðviljinn var í heimsókn hjá starfsmanni RÚV í gærkvöldi og gat því notið þess að horfa á dagskrá Ríkissjónvarpsins í sjónvarpi sem ekki þarf að greiða afnotagjald af þótt það standi skýrum stöfum í lögum að svo beri að gera. Í gærkvöldi var þáttur úr þáttaröð um kalda stríðið sýndur í Ríkissjónvarpinu þar sem sýnt var frá aðdraganda þess að Múrinn hrundi og Austur-Evrópa hristi af sér hlekki sósíalismans. Voru sýndar myndir frá því þegar fólk streymdi yfir til vesturs og grét af gleði yfir nýfengnu frelsi. Verða þessar myndir vafalaust meðal þess helsta sem menn munu sýna þegar saga 20. aldarinnar verður rifjuð upp. Á eftir þættinum um kalda stríðið spjallaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson við Jónas H. Haralz í þættinum Maður er nefndur. Ræddu þeir talsvert um skoðanir sem íslenskir vinstri menn svo sem Einar Olgeirsson hefðu haft á efnahagsmálum. Jónas taldi að eitt af því sem vinstri menn hefði skort var skilningur á því að hlutirnir gætu gengið vel fyrir sig án þess að þær væru skipulagðir út í ystu æsar af einum aðila. Vinstri mönnum væri fyrirmunað að skilja að menn gætu stillt saman strengi sína í frjálsu markaðskerfi. Jónas vék einnig að þeirri hugmynd Keynes að stjórnmálamönnum nægi að hafa vel menntaða og vísa menn sér við til til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir. Taldi Jónas ólíklegt að nokkur stjórnmálamaður léti ekkert annað ráða för en góð ráð vísustu manna og ráðgjafarnir sjálfir væru ekki lausir við að ýmsilegt annað en almannaheill hefði áhrif á ráð þeirra. Óhætt er að taka undir með Jónasi að því fleiri ákvarðanir sem einstaklingarnir taka sjálfir um sín mál því líklegra er að efnahagslífið blómstri.

Rögnvaldur Hannesson fékk viðhafnarviðtal við sig í Morgunblaðinu á sunnudaginn eins og Vef-Þjóðviljinn hefur getið. Margt í máli hans var sannfærandi en annað minna svo. T.d. sagði hann: „Það má jafnvel halda því fram að ef auðlindagjald er ekki tekið þá eru fyrirtækin verr rekin en ella því þá hafa þau meira fé á milli handanna og hvatningin til að halda niðri kostnaði verður veikari.“ Í ljósi þessara ummæla má spyrja hvort ekki sé hægt að ganga enn lengra, en að taka af fyrirtækjunum aukið fé, til að gera þau betur rekin? Til að mynda mætti taka af fyrirtækjunum einn og einn bíl sem þau eiga, sökkva fyrir þeim skipi við og við, eða brenna áhaldaskúr þeirra árlega svo þau þurfi virkilega að hafa sig öll við að skila hagnaði.

Hins vegar byggir þessi hugsun Rögnvaldar á þeirri forsendu, að því er virðist, að fyrirtækin hámarki ekki hagnað sinn eftir að þau eru byrjuð að skila hagnaði á annað borð. Þau verði kærulaus og óhagkvæm. Um það má deila. Þegar illa gengur eyða fyrirtækin vissulega jafnan meiri orku í að eyða sóun við smæstu vísbendingar þar um, en hugsanlega verja þau kröftum sínum til annarra og enn arðvænlegri aðgerða þegar betur árar. Að öðrum kosti eiga þau á hættu að verða undir í samkeppninni. Og jafnvel þótt rétt væri að fyrirtækin þurfi á stundum sérstakt aðhald til að hámarka hagkvæmni sína þá byggir skattheimtuhugmynd Rögnvaldar á þeirri frumlegu forsendu að ríkið muni verja skattfénu með jafn hagkvæmum eða hagkvæmari hætti en fyrirtækin. Þetta er svipað hugsanaferli og þegar sagt er að á uppgangstímum þurfi að hækka skatta til að spara og draga úr líkum á ofþenslu. Á krítartöflunni getur slík hugmynd gengið ágætlega upp, en hún byggir þó alltaf á þeirri undarlegu forsendu að opinberir aðilar spari betur og skynsamlegar en fólkið og fyrirtækin. Ætli svo sé í raun?