Laugardagur 14. ágúst 1999

226. tbl. 3. árg.

Þessa dagana keppist ákveðin tegund íslenskra fjölmiðla við að birta misskynsamlega útreikinga sína á hugsanlegum tekjum allskyns fólks. Þetta fólk á yfirleitt það eitt sameiginlegt að hafa hvorki gefið leyfi né sérstakt tilefni til þess að einkamál þess séu höfð til sölu í gróðaskyni fyrir útgefendur. Starfsmenn þeirra fjölmiðla, sem þetta gera á hverju einasta ári, halda því kannski fram að fjármál einstaklinga séu ekki einkamál þeirra heldur eigi allir að segja öllum allt um sig. En ef þeir eru í raun þeirrar skoðunar þá ættu þeir nú að hefja leikinn á að birta upplýsingar um laun hvers einasta starfsmanns fjölmiðilsins. Og þar ættu að vera hæg heimatökin og ekki þarf að nota útreikninga sem gjarnan reynast alrangir.

Umræður í tengslum við útflutning hrossa og innflutning kartöfluflaga eru ágætt dæmi um sérhagsmunagæslu sem þrífst í skjóli ríkisvalds. Hrossabændur telja hag sínum best borgið með því að fá niðurfellingu tolla erlendis og sætta sig vel við að í staðinn verði kartöfluflögur fluttar tollfrjálst hingað til lands. Þá rís annar sérhagsmunahópur upp á afturlappirnar, kartöflubændur, og álítur afleitt að aflétta tollum á sinni vöru. Of mikil afskipti hins opinbera af lífi fólks hefur gert það að verkum að umræða á borð við þessa getur átt sér stað. Sérhagsmunahópar eru vanir því að nóg sé að hafa nægilega hátt um hagsmunamál sitt og þá láti stjórnmálamenn undan og reglum ríkisins verði breytt sérhagsmununum í vil. Hagsmunir almennings gleymast í þessum óskemmtilega leik, því hann á sér yfirleitt ekki öflugan talsmann og má sín lítils í samkeppni við launaðar málpípur sérhagsmunanna.

Til að draga úr áhrifum sérhagsmunahópanna er nauðsynlegt að reglur sem gilda séu almennar og að tollar og aðrir skattar séu lágir. Séu reglur almennar og án undanþága er erfitt fyrir sérhagsmunahóp að koma undanþágu í gegn, því undanþágan er áberandi ef hún er ein. Þegar undanþágurnar eru margar og flóknar missa aðrir en sérhagsmunahóparnir sjálfir sjónar á þeim og auðveldara er að hringla með reglurnar. Þegar tollar og aðrir skattar eru lágir er hvatinn minni fyrir sérhagsmunahópana að viðhalda þeim eða fá undanþágu og þetta getur því einnig hjálpað til við að draga úr þrýstingi sérhagsmunanna. En ef tollar eru tugir eða jafnvel hundruð prósenta eru hagsmunirnir af því að hafa áhrif á þá orðnir miklir og þá borgar sig að hækka laun málpípanna og auka hávaðann í þeim.