Föstudagur 13. ágúst 1999

225. tbl. 3. árg.

Það heyrist ósjaldan að herða eigi refsingar vegna fíkniefnaafbrota. Það muni draga úr þeim skaða sem fíkniefni valda. Í Íran liggur dauðarefsing við því að eiga smáskammt af fíkniefnum. Á fréttavef Morgunblaðsins í gær var sagt frá því að fíkniefnalögreglan í Íran skaut 21 fíkniefnasala til bana þegar til átaka kom á milli þeirra og lögreglu í borgunum Tourbat-Heydarieh og Khwaf. Nokkrum fíkniefnasölum tókst að flýja en lögreglan gerði handsprengjur og ópíum upptækt. Jafnframt fylgir fréttinni að átök af þessu tagi milli lögreglu og fíkniefnasala séu algeng í Íran. Það er því ekki að sjá að það komi í veg fyrir fíkniefnasölu að svipta dópsalana lífi þegar til þeirra næst. Þvert á móti virðast harðar refsingar vera eins og olía á eldinn, fíkniefnasalarnir vígbúast og beita öllum vopnum gegn lögreglu enda búið að að gera þeim ljóst með harðari refsingum að annaðhvort myrði þeir lögregluna eða verði teknir af lífi.

CATO Institute heldur í haust ráðstefnu um fíkniefnabannið og hvað taki við þegar banninu verður aflétt. Bannið hefur gjörsamlega mislukkast og væntingar stjórnmálamanna um sigur í stríðinu við dópið hafa að engu orðið. Bannið hefur ekki dregið úr framboði á fíkniefnum. Pólítíkusarnir lýstu því meðal annars yfir fyrir tíu árum að „Ameríka yrði fíkniefnalaus árið 1995“. Þetta er ekki ósvipað þeirri frómu ósk að Ísland verði fíkniefnalaust árið 2002.