Fimmtudagur 12. ágúst 1999

224. tbl. 3. árg.

Ríkisútvarpið var rekið með 345 milljóna króna tapi á síðasta ári, að því er kemur fram í Viðskiptablaðinu í gær. Engu að síður jukust rekstrartekjur á því ári. Í skýrslu útvarpsstjóra kemur fram að heldur hafi verið þrengt að fyrirtækinu að undanförnu „með því að fækka tekjustofnum þess, ásamt því sem hækkun á afnotagjöldum hafi ekki fylgt almennum launahækkunum.“ Þetta er afar einkennileg yfirlýsing frá yfirmanni „fyrirtækis“. Ímyndum okkur að framkvæmdastjóri einkafyrirtækis lýsti því yfir að sér þætti miður að verð á vöru fyrirtækisins hefði ekki hækkað jafmikið og laun fólks. Hann væri afar óánægður með að fólk fengi meira fyrir laun sín en áður. Afnotagjöld til Ríkisútvarpsins eru lögboðin. Þau eru skattur eins og bifreiðagjöld. Fólk ræður ekki hvort það greiðir þau eður ei og hefur ekki beðið um þjónustuna sem skatturinn fer í.   Ríkisforstjórinn lýsir því yfir að hann sé óhress með að Ríkisútvarpinu hafi ekki tekist að hrifsa nægilegan hluta af launahækkunum almennings til sín með því að hækka þennan skatt.

Útvarpsstjóra og öðrum starfsmönnum Ríkisútvarpsins þykir mörgum ekkert tiltökumál að fólk greiði afnotagjöldin og í hvert sinn sem laun hækka þá eigi afnotagjöldin einnig að hækka. (Vef-Þjóðviljinn minnist þess ekki að útvarpsstjóri hafi óskað eftir lækkun afnotagjalda þegar launavístitala lækkaði í byrjun áratugarins.) Ef til vill hefur það áhrif að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa ekki þurft að greiða afnotagjöldin frá árinu 1979. Fastráðnir starfsmenn RÚV eru 369. Alls eru því afnotagjöld fyrir rúmar 9 milljónir króna felld niður vegna starfsmanna. Þó fer ekki á milli mála samkvæmt lögum um ríkisútvarpið að þeir eiga að greiða afnotagjöldin eins og aðrir. Þeir hafa heldur ekki greitt skatt af þessum hlunnindum sínum.

Þurrkar og vatnsskortur í Bandaríkjunum hafa verið töluvert í fréttum að undanförnu. Jerry Taylor, forstöðumaður rannsókna á náttúruauðlindum hjá Cato stofnuninni í Bandaríkjunum heldur því fram í nýrri grein á heimasíðu stofnunarinnar að vatnsskortinn megi rekja til ofstjórnar hins opinbera. Hann bendir á að þegar framboð á vatni minnki sé eðlilegt að verð þess hækki til að fólk dragi úr notkun sinni til samræmis. Í Bandaríkjunum sé verð á vatni hins vegar ekki háð lögmálum framboðs og eftirspurn heldur skoðunum stjórnvalda á því hvert verðið eigi að vera. Taylor segir að vatnsverð sé að meðaltali aðeins um helmingur þess sem það þyrfti að vera og eigi þetta sérstaklega við um vatn til áveita hjá bændum sem búa í fylkjum sem henta illa til landbúnaðar. Hörmulegar afleiðingar þurrkanna í Bandaríkjunum eru því að mati Taylors enn eitt dæmið um vandamál sem fylgja reglugerðafrumskógi hins opinbera. Væru engar hömlur á viðskiptum með vatn eða reglur um hámarksverð þess, væru þurrkar ekki sú plága sem raun ber vitni í Bandaríkjunum.