Pete du Pont fyrrum ríkisstjóri og þingmaður ritaði nýlega grein í netútgáfuna sem hann ritstýrir, IntellectualCapital.com, um þær skattalækkanir sem verða væntanlega í Bandaríkjunum á næstu árum. Góðu fréttirnar segir hann vera þær að skattar muni lækka en þær slæmu að þeir muni ekki lækka nógu mikið. Talið er að skattalækkunin á næstu tíu árum muni nema frá 270 milljörðum dala (ef Clinton og Gore ráða för) til 800 milljarða dala (ef repúblíkanar í þinginu ná sínu fram). 800 milljarðar dala eru 56.000 milljarðar íslenskra króna. Bandaríkjamenn eru þúsundfalt fleiri en við og þar eru skattar lægri en hér. Hefur einhver stjórnmálaflokkur hér lagt til að lækka skatta þannig að landsmenn borgi 56 milljörðum minna á næstu tíu árum í skatta en ella? Nei, hér segja menn að hækka þurfi skatta í kreppu til að tryggja hag ríkissjóðs en svo má ekki lækka skatta verulega í góðæri vegna þess að almenningur muni fjárfesta í tómri vitleysu. Í Bandaríkjunum er ekki síður góðæri en hér en þar eru menn greinilega ekki ekki hræddir við að fólk fari sér að voða ef það heldur meiru eftir af sjálfaflafé sínu.
Pete du Pont segir að Kennedy og Reagan hafi lækkað skatta og það hafi skilað sér í auknum krafti í efnahagslífinu og fjölgun starfa sem aftur leiði til aukinna tekna ríkisins. Því ættu þeir sem hafa áhyggjur af hag ríkissjóðs að geta andað rólega þótt skattar lækki. Þetta er í samræmi við reynsluna af skattalækkun á fyrirtæki hérlendis fyrir nokkrum árum. Þá var tekjuskattur á fyrirtæki lækkaður en tekjur ríkisins af skattinum jukust í kjölfarið vegna batnandi hags fyrirtækjanna.