Þriðjudagur 10. ágúst 1999

222. tbl. 3. árg.

Í fréttum á dögunum var sagt frá því að háskóli í Massachusetts í Bandaríkjunum byði upp á nektardans sem valfag. Var slíkt námskeið einnig haldið í fyrra við góða aðsókn og greinilegt að margir vilja kynna sér hvernig menn bera sig (að). Nú hefur verið mikið um það rætt að tengja skólakerfið hér á landi betur við það sem helst er á döfinni í atvinnulífi landsmanna. Nektardans hefur verið einn helsti vaxtarbroddurinn undanfarið. Við þetta bætist sú krafa samtaka listamanna að listum sé gert hærra undir höfði í skólum landsins. Ekki er gott að sjá hvernig yfirvöld menntamála ætla að víkja sér undan því að bjóða upp á kennslu í nektardansi. En geri þau það ekki geta menn að sjálfsögðu fengið námslán til að stunda námið erlendis og þar sem ekki er boðið upp á það hér fá menn skólagjöldin að sjálfsögðu greidd af Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það verður svo spennandi að fylgjast með samanburði á árangri íslenskra nemenda og annarra í næstu TIMSS könnun.

Í Bretlandi velta menn fyrir sér stöðu BBC, ríkissjónvarpsins breska, rétt eins og staða og hlutverk Ríkisútvarpsins er stundum til umræðu hér á landi. Nú hefur að sögn tímaritsins The Economist verið sett á laggirnar nefnd til aðstoðar ríkisstjórninni við að ákveða hversu mikla fjármuni BBC skuli fá frá skattgreiðendum. Það er skemmst frá því að segja að tímaritið telur að heppilegt sé að afleggja skyldugreiðslur til BBC. Best sé að breyta stofnuninni í hlutafélag sem sett væri á markað og að taka upp frjálsar áskriftir að útsendingunum. The Economist er þeirrar skoðunar að um leið og BBC fengi með þessu meiri fjármuni en nú er, þá mundi dagskráin batna og það mundi framleiða og sýna betra efni en nú er til að halda í áhorfendur sína.

Hér á landi er full ástæða til að setja Ríkisútvarpið á markað líkt og The Economist leggur til að gert verði við BBC. Engin ástæða er til að ríkið reki fjölmiðla og það er auk þess bæði óeðlilegt og skaðlegt. Það sést hversu óeðlilegt það er þegar hugurinn er leiddur að því hvort Ríkisútvarpið væri stofnað nú ef það væri ekki til. Vitaskuld dytti engum í hug að stofna það nú, það er bara til í núverandi mynd af gömlum vana. Og líklega er þá réttast að kalla innheimtu lögbundinna afnotagjaldanna slæman ávana.