Fyrir þingkosningar síðastliðið vor var reynt að telja fólki trú um að búið væri að sameina vinstri menn. Það voru ekki síst talsmenn fylkingarinnar sem héldu þessu fram og voru það víst mikil tíðindi í íslenskum stjórnmálum að búið væri að sameina vinstri menn í einn stóran flokk. Á sama tíma voru vinstri menn að stofna flokk vinstri-grænna og lítið varð úr sameiningunni. Í Degi á laugardaginn er Guðmundur Árni Stefánsson spurður hvort hann sjái fram á að fylkingin og Vinstri grænir sameinist í einn flokk. Guðmundur er í þessu sama viðtali að munstra sig í formannsstól fylkingarinnar svo það er forvitnilegt að heyra hvort væntanlegur formaður fylkingarinnar telur að mögulegt sé að hinn gamli draumur um sameiningu vinstri manna rætist. Svar hins verðandi formanns er svohljóðandi: Nei, því miður sé ég það ekki. Vinstri-grænir er öfgafullur flokkur þótt hann sé um leið að mörgu leyti íhaldssamur. Þetta er flokkur sem sér draug í hverju horni. Þetta er fúll á móti flokkur.
Guðmundur Árni setur einnig fram þá kenningu í þessu viðtali í Degi að langvarandi valdaseta spilli mönnum. Það var líklega þess vegna sem Guðmundur Árni sá þann kost vænstan að segja af sér eftir aðeins eitt ár sem ráðherra.