Helgarsprokið 8. ágúst 1999

220. tbl. 3. árg.

Forsætisráðherra og höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins eru sammála um að ríkisvaldið eigi að beita sér fyrir því að eignaraðild að fjármálastofnunum verði með tilteknum hætti. Þeir vilja að eignin verði dreifð og félögin „almenningshlutafélög“ eins og höfundur Reykjavíkurbréfisins í gær nefnir hlutafélög að sínu skapi. Ekki er gott að sjá hvernig á að tryggja þetta og hvorugur leggur fram lausn á því máli. Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins er langur pistill en þar er ekki að finna neina útfærslu á því hvernig þvinga má fram tiltekna dreifingu hlutafjár í félögum á frjálsum markaði. Báðir reyna hins vegar að haga málflutningi sínum þannig að það hljómi eins og það sé almenningi hagsmunamál að eignaraðild að fjármálastofnunum sé dreifð.

Gefum okkur nú að það tækist að einkavæða ríkisbankana FBA, Búnaðarbanka og Landsbanka með þeim hætti að eignaraðild yrði mjög dreifð, svo dreifð að Morgunblaðið gæti kallað félögin „almenningshlutafélög“ og forsætisráðherra gæti óhikað sagt að íslenska þjóðríkið væri ekki „í höndunum á mjög fáum aðilum“ eins og það var orðað. (Raunar er það þannig nú að viðskiptaráðherra hefur hendur á meirihluta bréfa í öllum þessum bönkum svo að erfitt er að sjá að ástandið verði „óhollara“ en nú, hvað sem gerist.) En ef almenningur eignast hlutabréf í bönkunum er þá ekki deginum ljósara að það væri andstætt hagsmunum þessa sama almennings ef stórum fjárfestum væri bannað að auka hlut sinn í bönkunum? Hluthöfum væri með öðrum orðum bannað að selja hæstbjóðanda bréfin. Ætli eftirspurn almennings eftir slíkum bréfum yrði mikil þegar bankarnir verða loks einkavæddir ef það er svo bannað að selja þau þegar gott verð býðst? Gera forsætisráðherra og Morgunblaðið ráð fyrir að hægt sé að fá almenning til að kaupa hlutabréf sem bannað er að selja ákveðnum aðilum? Og hvað með þann almenning sem þegar hefur keypt bréf í bönkunum? Vilja forsætisráðherra og Morgunblaðið fella hluti þessa fólks í verði með því að takmarka viðskipti með hlutabréfin? Gagnvart þessu fólki væru slíkar aðgerðir hrein vörusvik.

Í Reykjavíkurbréfinu í gær segir einnig: „Það er stundum talað um að handstýring ríkisins á margvíslegum þáttum í samfélagi okkar eigi að heyra fortíðinni til. En er sú tegund af „handstýringu“, sem fram fór við sölu ofangreindra hlutabréfa [í FBA] eitthvað betri en opinber handstýring. Auðvitað ekki. Það er ekki markaðurinn, sem réð verði hlutabréfanna í FBA eða hverjir keyptu. Verðið var ákveðið í samningum örfárra aðila og sömuleiðis hverjir skyldu fá bréfin keypt.“ Þetta er ótrúlegur málflutningur og vafalaust þarf að fletta upp í Þjóðviljanum sáluga þar sem öll viðskipti voru kölluð baktjaldamakk til að slá þessu við. Í seinni tíð má líklega einna helst finna svipaðan málflutning hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og á köflum er Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í gær eins og mælt úr hennar munni. Það vekur svo auðvitað nokkra furðu að eins og almenningshlutafélög hafa verið Morgunblaðinu hugleikin þá er útgáfufélag blaðsins, Árvakur hf., lokað félag í eigu örfárra aðila og litlum sögum fer af viðskiptum með bréf í félaginu eða gagnrýni á eignaraðildina í leiðurum blaðsins. Ekki er að efa að til eru menn sem telja það fráleitt að sterkur fjölmiðill eins og Morgunblaðið sé „í höndunum á mjög fáum aðilum“. Fjölmiðlar eru oft nefnir fjórða valdið og taldir vera mjög skoðanamyndandi. Ef einhver rök hníga að því að takmarka viðskipti með bréf í bönkum hljóta fjölmiðlafyrirtæki að koma til slíkrar meðferðar og þá væntanlega áður en bankarnir verða teknir fyrir ef fjölmiðlar eru jafn mikilvægir og þeir sjálfir telja.

Þessi umræða byggist reyndar öll á þeim misskilningi að til að frjáls markaður geti haft jákvæð áhrif þá þurfi hann að vera það sem kallast í hagfræðilíkönum „fullkominn markaður“. Sá markaður er því miður ekki til nema í þessum líkönum hagfræðinga en sú staðreynd breytir engu um það að best er að markaðurinn sé sem frjálsastur til að hann skili hlutverki sínu sem best. Þó verð myndist ekki við einhverjar ímyndaðar „fullkomnar“ aðstæður er ekki þar með sagt að það sé vitlausara verð en það verð sem til yrði með inngripum hins opinbera. Þegar hið opinbera hefur ekki afskipti af verðmyndum myndast verðið á markaðnum og á bak við verðið eru bestu fáanlegar upplýsingar og verðið er „rétt verð“ miðað við bestu mögulegu aðstæður. Verðið getur því með réttu kallast markaðsverð og algerlega rangt að tala um að því sé handstýrt þó aðilar að kaupunum hafi aðeins verið „örfáir“ en ekki „óendanlega margir“ eins og miðað er við í fyrrnefndum ófullkomnum líkönum hagfræðinnar.

Annað sem finna má að málflutningi forsætisráðherra og Morgunblaðsins er, að verði þeim að ósk sinni um mjög dreifða eignaraðild þar sem enginn á nægilega stóran hlut til að geta haft veruleg áhrif á stjórn bankanna, þá munu eigendurnir í raun ekki ráða ferðinni. Þeir sem þá munu verða nær einráðir í bönkunum eru bankastjórarnir, sem fara munu sínu fram að mestu án aðhalds eigenda. Þeir hafa sína hagsmuni ekki síður en stórir eigendur í bönkunum og engin ástæða til að ætla að þeirra hagsmunir fari frekar saman við hagsmuni viðskiptavina bankanna heldur en hagsmunir eigendanna. Það má jafnvel ætla að líklegra sé að hagsmunir stórs hluthafa í banka og viðskiptavina bankans fari saman en hagsmunir bankastjóra og viðskiptavina. Úr þessu getur Vefþjóðviljinn þó ekki skorið og það geta aðrir ekki heldur. Einmitt þess vegna er mikilvægt að það ráðist á markaðnum en ekki á Alþingi, í stjórnarráðinu eða á Morgunblaðinu, hvernig eignaraðild að bönkum er háttað.