Föstudagur 30. júlí 1999

211. tbl. 3. árg.

Það er rætt við Jack Kemp, fyrrum þingmann og ráðherra í Bandaríkjunum og varaforsetaefni Republikana árið 1996, í nýjasta fréttabréfi Competitive Enterprise Institute. Þar er hann m.a. spurður um um Kyoto samninginn um losun gróðurhúsalofttegunda. „Það er margt sem mælir gegn Kyoto. Í fyrsta lagi er Kyoto samningurinn byggður á þeirri hugmynd að maðurinn hafi valdið hlýnun í andrúmslofti jarðar frá iðnvæðingu. Þetta er þó aðeins kenning sem við vitum ekki hvort fær staðist. Ýmislegt mælir gegn henni til dæmis það að áður en maðurinn fór að nota vélar sem brenna jarðefnaeldsneyti svo nokkru nemi hlýnaði verulega. Það segir okkur að brennsla gass, kola og olíu hefur ræður ekki öllu um breytingar í andrúmsloftinu. Í öðru lagi er það ekki víst að það sé vandamál þótt kenningin sé rétt og hlýnun eigi sér stað. Er að hlýna svo hratt að það skapi vandamál? Er það ef til vill gott að það hlýni? Kannski skiptir það engu máli.“ segir Kemp.

Kemp bætir svo við: „Við vitum því ekki hvort varanleg hlýnun á sér. Við vitum ekki hvort það hlýnar svo hratt að vandræði stafi af. Við vitum ekki hvort hlýnunin tengist bruna eldsneytis. Og við vitum ekki hvaða áhrif þessar breytingar ef einhverjar eru hafa á efnahagslífið. Kyoto samningurinn er því byggður á afar veikum grunni“

Í gær var birt svonefnd álagningarskrá á skattstofum um land allt. Í þessum ógeðfelldu skrám má finna upplýsingar um hversu mikla tekjuskatta menn greiða og út frá því má áætla ýmislegt um persónulega hagi manna svo sem laun og tekjur af sölu fyrirtækja. Þessar upplýsingar eru þó ekki tæmandi heldur má áætla ýmislegt um fjárhag einstaklinga út frá þeim. Ýmsir fjölmiðlar leggjast svo lágt að senda starfsmenn sína á vettvang til að þefa uppi upplýsingar um ákveðna einstaklinga og áætla svo með misgáfulegum hætti tekjur þeirra út frá þessum upplýsingum og birta. Það eru þó auðvitað starfsmenn skattstofanna sem leggjast lægst með sérstakri birtingu „hákarlalista“ en það er listi yfir þá sem greiða hæstu skattana. Það er ekki nóg með að ríkið hirði af þeim tugi milljóna í skatta heldur er fólk í vinnu við það á skattstofum að dreifa upplýsingum um fjárhag þessara „hákarla“ til fjölmiðla.