Fimmtudagur 29. júlí 1999

210. tbl. 3. árg.

Þegar sérstakur tekjuskattur sem oftast er nefndur hátekjuskattur var lagður á árið 1994 var hann sagður tímabundinn. Síðast þegar hann var samþykktur á Alþingi var hann hins vegar gerður ótímabundinn. Taflan hér að neðan sýnir hvernig skatturinn hefur breyst frá því hann var fyrst samþykktur en hann er ákveðið hlutfall af tekjum umfram ákveðna krónutölu.

Ár Tekjumark einstaklings Tekjumark hjóna Hátekjuskattur
1994 2.440.080 4.880.160 5%
1995 2.494.080 4.988.160 5%
1996 2.805.840 5.611.680 5%
1997 2.805.840 5.611.680 5%
1998 2.805.840 5.611.680 5%
1999 3.198.000 6.396.000 7%

Frítekjumarkið hefur semsé hækkað um 31% frá því skatturinn var tekinn upp. Á sama tíma hefur launavísitala hins vegar hækkað um 38%. Eins og sjá má var skatturinn sjálfur hækkaður úr 5 í 7% á síðasta ári. Ein ástæðan sem menn notuðu til að réttlæta þá hækkun var að tekjumarkið hefði einnig verið hækkað verulega. Staðreyndin er þó sú að laun hafa hækkað meira en tekjumarkið frá því skatturinn var fyrst lagður á. Hátekjuskatturinn er því ekki aðeins orðinn ótímabundinn heldur bæði hærri en nokkru sinni fyrr og lendir á fólki neðar á launaskalanum en þegar skatturinn var lagður á 1994 sem tímabundinn skattur!

Hátekjuskatturinn lendir ekki aðeins á breiðu bökunum heldur einnig á fólki sem tímabundið vinnur mikla vinnu til að koma undir sig fótunum eða koma yfir sig þaki. Hinn almenni tekjuskattur og allar tekjutengdu bæturnar valda því að þeir sem vinna mikið eða hafa „háar“ tekjur af öðrum ástæðum greiða mun hærri skatta í krónum talið. Það er því að bera í bakkafullan lækinn að leggja sérstakan skatt á þennan hóp.