Miðvikudagur 28. júlí 1999

209. tbl. 3. árg.

Davíð Oddsson forsætisráðherra lét hafa það eftir sér í fjölmiðlum í gær að dregið yrði úr framkvæmdum á vegum ríkisins og mikilvægt sé að sveitarfélög dragi einnig úr framkvæmdum á sínum vegum. Jafnframt sagði forsætisráðherra að reka ætti ríkissjóð með töluverðum afgangi. Þetta eru ánægjuleg skilaboð. Áhugamenn um ýmis gæluverkefni eins og jarðgöng, menningarhús, tónlistarhús og íþróttahallir verða samkvæmt þessu að bíða a.m.k. um sinn eftir því að ríkið seilist í vasa almennings til að fjármagna áhugamálin.

Sú kenning hefur verið lífseig að hið opinbera eigi að halda að sér höndum í góðæri en ausa fé í hvers kyns framkvæmdir þegar efnahagslífið er í lægð. Nú er sjálfsagt að taka undir það sjónarmið að ríkið á að halda að sér höndum þegar vel árar í efnahagslífinu, greiða skuldir og lækka skatta. Þessu heilræði hefur þó sjaldan verið fylgt við stjórn efnahagsmála hér á landi. Þvert á móti hafa góðærisskeið í efnahagsmálum verið nýtt til að þenja hið opinbera svo hressilega út að á endanum hefur öllum efnahagsbatnum verið eytt í gæluverkefni en minna setið eftir sem arðbærar fjárfestingar í atvinnulífinu. Stjórnmálamenn hafa ekki staðist þá freistingu sem felst í auknum skatttekjum og fremur kosið að eyða þeim í sýnileg verkefni eins og vegi en ósýnileg verkefni eins og greiðslu skulda og skattalækkanir til fyrirtækja.

Hitt er öllu furðulegra að ríkið eigi að þenja sig úr þegar atvinnulífið er í lægð. Það getur vart talist æskilegt að þegar atvinnulífið á undir högg að sækja að ríkið hefji keppni við það um fjármagn og vinnuafl. Þetta gerði Franklin D. Roosevelt þegar hann komst til valda árið 1932 eftir að kreppan skall á í Bandaríkjunum og var eyðslustefna hans nefnd New Deal. Gegndarlaus fjáraustur í opinberar framkvæmdir, atvinnusköpun og innflutningshöft komu í veg fyrir að atvinnulífið rétti úr kúttnum og kreppan stóð lengur en nokkur önnur í sögu Bandaríkjanna. Roosevelt hafði gagnrýnt forvera sinn í embætti Herbert Hoover í kosningabaráttunni 1932 fyrir eyðslusemi og sagði stjórn Hoovers vera „mestu eyðslustjórn á friðartímum í sögunni.“ Roosevelt var þó enginn eftirbátur Hoovers því að á árunum 1933 til 1936 jukust útgjöld hins opinbera um 83% og skuldir hins opinbera hækkuðu um 73%. Vegna þessarar stefnu var atvinnuleysi í Bandaríkjunum árið 1938 enn um 20%.