Þriðjudagur 27. júlí 1999

208. tbl. 3. árg.

Messíana Tómasdóttir er fylgjandi því að „banna erótíska skemmtistaði á Íslandi“. Þetta kemur fram í dálknum Með og á móti í DV í gær. Messíana hefur sínar ástæður fyrir þessari skoðun. Í fyrsta lagi telur hún að vændi og eiturlyf tengist slíkum stöðum. Það væri huggulegt að litast um ef allt það væri bannað sem „tengst“ hefur vændi eða eiturlyfjum. Raunar eru vændi og eiturlyf víða bönnuð án þess að það hafi tilætluð áhrif og þá er líklega rétt að banna allt sem „tengist“ því sem þegar er bannað og jafnvel allt sem tengist því sem tengist því sem er bannað. Stjórnlyndir einræðisherrar taka þessari speki frá Messíönu vafalaust fagnandi. En Messíana telur einnig að þeir sem reka þessa staði „geri út á brenglun og kvenfyrirlitningu“. Það er einmitt það. Þeir sem haldnir eru kvenfyrirlitningu borga stórfé fyrir að horfa á konur. Messíana bendir svo á að konur dansi ekki á nektardansstöðum nema þær hafi „afneitað sjálfvirðingunni“ og bjóðist ekki betra starf. Með þessu er Messíana auðvitað að segja að einstaklingur sem stundað hefur nektardans geti ekki fengið aðra vinnu. Var Messíana ekki að saka aðra um fyrirlitningu? Nektardansarar velja starf sitt vegna þess að það er betra en annað sem býðst. Messíönu til fróðleiks má líka geta þess að nektardansarar stunda jafnvel aðra vinnu með dansinum. Já og þetta fólk sem hefur „afneitað sjálfvirðingunni“ fær jafnvel góða vinnu eftir að það hættir að dansa.

Á næstunni mun einhver McDonalds veitingastaður þjónusta viðskiptavin McDonalds númer 100.000.000.000. (já, eitthundrað milljarðar). Þjóðernissinnar víða um lönd líta á fyrirtæki eins og McDonalds, Coca-Cola og Disney sem ógnun við „þjóðmenningu“ sína. Engu að síður eru það einstaklingarnir sem mynda þessar þjóðir sem velja vörur frá þessum fyrirtækjum. Ástæðan fyrir því að þeir velja þessar vörur er að þeim þykir þær betri en aðrar sem bjóðast. Menning þjóðarinnar er þannig. Það má því segja að þeir sem hafa horn í síðu þessara fyrirtækja hafa horn í síðu eigin „þjóðmenningar“.