Í DV hinn 10. júlí síðastliðinn var fróðleg úttekt á skattamálum. Í úttektinni var bent á að óbeinir skattar eru 75% af tekjum ríkissjóðs. Þessir óbeinu skattar eru til dæmis virðisaukaskattur og vörugjöld sem eru falin í vöruverði og eru ekki eins sýnilegir og beinu skattarnir eins og tekjuskattur. Ein ástæðan fyrir því hve þessir óbeinu skattar eru háir er vafalaust hve auðvelt er að fela þá í vöruverði. Ef verslanir færu að gefa upp verð án virðisaukaskatts myndi óþol gagnvart honum vafalaust aukast og stjórnmálamenn gætu síður hækkað skattinn án þess að fólk tæki eftir því. Fólk myndi einnig veita því athygli ef skatturinn lækkaði. Neytendasamtökin hafa um árabil barist gegn því að vöruverð sé auglýst án skatta. Það er vonandi ekki vegna þess að samtökin fá árlega styrk frá ríkinu þ.e.a.s. hlutdeild í skattheimtu ríkisins.
Í úttektinni í DV voru bornar saman meðalráðstöfunartekjur fjögurra manna fjölskyldu sem hefur 250 þúsund króna tekjur á mánuði og annarri alveg eins fjölskyldu með 300 þúsund króna. Þegar skattar hafa verið dregnir frá og bætur lagðar við kemur í ljós að ráðstöfnunartekjur fjölskyldunnar með lægri tekjurnar eru hærri!
Stjórn félagshyggjumanna á Kúbu heldur áfram að brjóta mannréttindi líkt og hún hefur alltaf gert. Ný skýrsla mannréttindasamtakanna Human Rights Watch segir frá því að andófsmenn séu ofsóttir sem fyrr og aðstæður í fangelsum hafi ekki batnað, jafnvel versnað. Menn eru handteknir oftar en áður fyrir að segja skoðun sína á stjórnvöldum og þó líkamlegar pyntingar í fangelsum landsins séu sjaldgæfar þá mun algengt að fangar séu kvaldir andlega.
Hér á landi er enn til fólk sem lætur opinberlega á ljós velþóknun sína á harðstjóranum Fidel Castro og er sú afstaða með miklum ólíkindum. Veraldlegir og andlegir leiðtogar hafa reynt að fá Castro til að slaka á klónni, en ekkert hefur gengið. Það sem ef til vill kæmi sér verst fyrir Castro væri ef Bandaríkin afléttu áratugalöngu viðskiptabanni sínu á Kúbu, enda hefur það líklega frekar þau áhrif að auðvelda harðstjóranum að halda þjóðinni í heljargreipum en að koma honum frá völdum. Frjáls viðskipti og þar með ríkari og sjálfstæðari Kúbverjar eru að líkindum vænlegasta leiðin til að koma Castro, félaga Margrétar Frímannsdóttur, frá völdum.