Helgarsprokið 25. júlí 1999

206. tbl. 3. árg.

Ríkisvald á Íslandi er gjarnan sagt greinast í þrennt, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Flestir landsmenn munu jafnan fúsir til að finna að einum eða öðrum störfum þeirra sem fara með fyrstu tvo þættina en hins vegar er sjaldgæfara að menn beini markvissri gagnrýni að þeim sem fara með dómsvald í landinu hverju sinni. Ef frá er skilið almennt tal um að dómar yfir misyndismönnum séu „alltof vægir“ virðast flestir taka fréttum af felldum dómum sem hverjum öðrum veðurfregnum; sem hlutum sem skipti þá máli en ekki sé hægt að deila um. Frá þessu eru auðvitað undantekningar og má þar sérstaklega nefna Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann sem verið hefur skeleggasti gagnrýnandi íslenskra dómstóla og hefur í áranna rás af og til gagnrýnt einstaka dóma sem fallið hafa í Hæstarétti Íslands. Hefur Jón meðal annars gefið út bók, Deilt á dómarana, þar sem hann rekur gagnrýni sína og færir rök að henni.

Því er ekki að neita að gagnrýni Jóns hefur fallið í misjafnan jarðveg og virðast margir hika við að gagnrýna dómara. Miklu fleiri hafa orðið til þess að vanda um fyrir gagnrýnendum og hreinlega telja gagnrýni óviðeigandi. Áberandi er að dómarar taka engan þátt í umræðum um dóma og virðast margir þeirrar skoðunar að dómarar eigi ekki að tjá sig um fellda dóma og þess vegna sé ómaklegt af öðrum af öðrum að tjá sig um dómana því dómararnir geti svo ekki svarað fyrir sig.

Síðastliðinn vetur felldu dómarar við Hæstarétt dóm sem í daglegu tali varð nefndur „kvótadómurinn“. Meðal niðurstaðna þeirra var sú, að tiltekin grein í lögum um stjórn fiskveiða stangaðist á við eina grein stjórnarskrárinnar. Nú er sú lögfræðitúlkun dómaranna ekki umfjöllunarefni Vefþjóðviljans að þessu sinni, en honum þóttu viðbrögð sumra við dómnum athyglisverð og til marks um þann sið að taka dómum sem óhagganlegum sannindum. Fagnendur dómsins tóku honum sem sönnun fyrir því að þeir hefðu haft rétt fyrir sér í tiltekinni deilu. Víst er um það, að réttarfar landsins gerir ráð fyrir því að endanlegur dómur í máli séu lok þeirrar þrætu. Hins vegar er ekkert sem segir að dómur sé réttur. Helgast þetta af því að dóm semja eingöngu nokkrir menn, tveir, þrír, fjórir, fimm eða fleiri eftir atvikum, og þeir eru ekki alvitrir frekar en aðrir. Dómur er einungis skoðun þeirra á álitaefninu en ekki niðurstaða vísindalegrar rannsóknar eða endanlegur sannleikur. Sá dómur sem hér var nefndur „kvótadómurinn“ er þannig að sjálfsögðu engin sönnun um það hvort tiltekin lagagrein fæst samræmd tiltekinni stjórnarskrárgrein. Hann segir einungis að þessum tilteknu mönnum þótti svo ekki vera og þannig hittist á að þessum mönnum var falið að setja saman niðurstöðu um málið.

Nú má vera að skoðun fólks á því sem hér hefur verið sagt, taki eitthvert mið af því að þessi dómur fjallaði að nokkru um stjórnmálalegt deiluefni. Hins vegar sjást þessi atriði betur ef litið er til annars dóms sem nýlega vakti athygli en ekki stjórnmáladeilur. Á dögunum var maður nokkur ákærður fyrir að hafa ætlað að smygla þúsundum svokallaðra e-taflna til landsins. Niðurstaða meirihluta þeirra dómara sem komu að málinu, þriggja af fimm, varð sú að ekki hefðu verið færðar sönnur á sekt hans og var hann því sýknaður. Maðurinn telst því saklaus af því að hafa ætlað að smygla þessum töflum. Ef einhver af þessum þremur dómurum í meirihlutanum hefði orðið annarrar skoðunar hefði maðurinn verið sakfelldur og teldist því sekur um að hafa ætlað að smygla töflunum. Einnig má nefna að ef aðrir af dómurum Hæstaréttar hefðu valist í dóm í þessu máli hefði niðurstaðan hugsanlega orðið önnur. Flestir hljóta að sjá að niðurstaða dómaranna sannar ekkert um það hvað vakti fyrir hinum ákærða manni og hvað ekki. Dómur er eingöngu til marks um niðurstöðu tiltekinna manna á tilteknu deiluefni.

Og meðal annars þess vegna er sjálfsagt að menn fjalli á málefnalegan hátt um störf dómara. Lykillinn að virðingu fólks fyrir dómurum og þeirra störfum er ekki að um dóma ríki þögn og lotning heldur að fólk telji sig hafa ástæðu til að ætla að málefnalega sé staðið að dómstörfum og að þau standist röklega gagnrýni.

Krafan um gagnrýna umræðu um dóma er ekki ný af nálinni. Felix Frankfurter, sem í 30 ár var lagaprófessor við Harvard háskóla og síðar í rúm 20 ár dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, til ársins 1962, setti fram sömu hugsun með orðunum: „Dómarar sem persónur og dómstólar sem stofnanir eiga í engu tilkall, umfram aðrar persónur og stofnanir, til að vera undanþegnir gagnrýni. Dómarar skyldu áminntir um takmarkanir sínar og endanlega ábyrgð með staðföstum straumi gagnrýni, færðum fram af heiðarleika og sanngirni en umbúðalaust engu að síður.“

Learned Hand, sem var alríkisdómari í Bandaríkjunum í rúm 40 ár til ársins 1951, var ekki heldur þeirrar skoðunar að störf dómara væru yfir gagnrýni hafin. Hann orðaði þessa skoðun sína með eftirfarandi hætti: „…þó það sé rétt að fólk finni að dómurum sínum þegar rangir dómar falla, þá er það aðeins sanngjarnt að það geri sér grein fyrir erfiðleikunum…. Látum umsvifalaust skipa [dómurunum] að standa fyrir máli sínu þegar þeir breyta rangt en þá frammi fyrir þeim sem eru reiðubúnir að skilja þá.“