Laugardagur 24. júlí 1999

205. tbl. 3. árg.

Menn eru alltaf að lögvernda fleiri starfsgreinar. Það er svo sem ekki að furða enda sækja margir hópar slíka aðstoð ríkisins mjög fast og stjórnmálamenn standa núorðið sjaldnast lengi gegn samstilltu átaki hagsmunahópa. Á dögunum vitnaðist það að hópur ferðamanna hafði lagt leið sína að forsetasetrinu Bessastöðum og meðal annars lagst þar á glugga og gónt á forseta Íslands eins og naut á nývirki. Þykir mönnum þetta að vonum vont því þó í baráttunni fyrir síðustu forsetakosningar hafi því meðal annars verið lofað að „opna Bessastaði fyrir ferðamönnum“ þá áttu menn nú kannski ekki við að þeir ætluðu að fara opna Bessastaði fyrir ferðamönnum.

Af þessu tilefni skrifaði Birna G. Bjarnleifsdóttir grein í DV. Birna þessi er „umsjónarm. Leiðsöguskóla Íslands“ og telur umrætt atvik til marks um það „að núverandi ástand í leiðsögumálum er algjörlega óviðunandi og er hneisa fyrir íslenska ferðaþjónustu.“ Málið er nefnilega að hér á landi eru menn sem selja leiðsöguferðir „án þess að þeim ferðum stjórni fagmenntaðir leiðsögumenn“. Birna segir að „víða á meginlandi Evrópu“ hafi „ekki aðrir heimild til að fara á ákveðna ferðamannastaði með ferðamenn en þeir sem geta framvísað leiðsögumannsskírteini.“ Og „þau skírteini fá ekki aðrir en þeir sem hafa staðist ströng leiðsögupróf.“. Birna klykkir svo út með því að það sé „löngu kominn tími til að leiðsöguréttindi séu tekin föstum tökum hér á landi.“.

Semsagt, nú er krafan sú að lögvernda leiðsögumannsstarfið. Ekki muni aðrir fara um með ferðamenn en þeir sem ríkið samþykkir – og að sjálfsögðu þyrfti svo eitthvert verkalýðsfélag þeirra sem eru fyrir í greininni að samþykkja alla nýja, svona til að tryggja fagleg vinnubrögð. Næsta skref yrði svo að tryggja að ekki geti hver sem er sagt villtum ferðamanni til vegar; það er aldrei að vita hvernig slíkt getur endað.

Hér virðist sem menn ætli að reyna að nýta framhleypni ferðamanna í hagsmunabaráttu þeirra sem nú stunda leiðsögustörf. Vefþjóðviljinn álítur hins vegar að lögverndun leiðsögumannsstarfs yrði, rétt eins og lögverndun starfsréttinda almennt er, brot á atvinnufrelsi almennra borgara. Þess vegna verði menn að hafna öllum hugmyndum í þá átt. Hins vegar sé ljóst að ekki megi líða að forseti Íslands liggi undir ágangi hvers sem er á heimili sínu. Þjóðinni hlýtur að vera skylt að sjá til þess að hennar bestu manna sé tryggilega gætt og því hvetur Vefþjóðviljinn til þess að forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, verði svo fljótt sem verða má komið í örugga gæslu.