Föstudagur 23. júlí 1999

204. tbl. 3. árg.

Verkalýðsfélög í Hong Kong vilja að þar í landi verði settar reglur um lágmarkslaun. Í efnahagsmálum er Hong Kong með allra frjálsustu ríkjum veraldar og hefur gætt þess að íþyngja hagkerfi sínu ekki með reglum á borð við lög um lágmarkslaun. Í staðinn hafa Hong Kong búar notið ört vaxandi velsældar og til marks um það má nefna að þangað hafa streymt flóttamenn frá nágrannaríkjum. Ríkisstjórn Hong Kong hefur svarað þessum kröfum verkalýðsfélaganna með því að benda á nokkrar einfaldar staðreyndir um fylgifiska laga um lágmarkslaun (eða ígildi þeirra eins og  skylduaðild að verkalýðsfélögum og forgangsréttarákvæði til vinnu, sem eru í gildi hér á landi).

Ríkisstjórn Hong Kong bendir á að verði lög um lágmarkslaun sett á muni það þýða aukið atvinnuleysi þar sem þeir launamenn sem eru undir mörkum þess að geta unnið fyrir lágmarkslaunum muni eiga á hættu að missa vinnuna. Auk þess yrðu lögin til þess að auka kostnað fyrirtækja og framlengja og dýpka efnahagslægðina sem nú ríkir. Ríkisstjórnin vitnaði máli sínu til stuðnings m.a. til skýrslu OECD þar sem segir að lágmarkslaun dugi ekki til að draga úr fátækt.

Friðrik J. Arngrímsson héraðsdómslögmaður tekur við starfi framkvæmdastjóra LÍÚ um næstu áramót. Í nýjasta fréttabréfi samtakanna er rætt við Friðrik um starfið, sjávarútveginn og stjórnun fiskveiða. Hann varar þar við tíðum lagabreytingum á þessu sviði eins og öðru og segir að fara verði varlega í slíkar breytingar. Síðan segir hann: „Það gildir alveg sama staðreynd um íslenskan sjávarútveg og allar aðrar atvinnugreinar; eftir því sem frelsið er meira gengur betur og afraksturinn verður meiri fyrir alla. Menn verða að hafa sem mest athafnafrelsi til að gera það sem er skynsamlegast hverju sinni, það skilar alltaf mestum arði til allra þegar upp er staðið.“

Friðrik víkur síðan að þekkingu fólks á sjávarútvegsmálum og segir mikið skorta á um að hún sé nægileg. „Hin almenna umræða um fiskveiðistjórnunina hefur því miður verið alla vega. Alls kyns hugtakaruglingur og vanþekking hafa verið áberandi og úr því þarf að bæta. En menn verða að átta sig á því að það munu alltaf einhverjir nærast á óánægju með fiskveiðistjórnunina. Aðalatriðið er að þorri fólks sé meðvitaður um við erum með stjórnkerfi sem er það besta sem við þekkjum og eigum völ á. Mikilvægast er að stjórnkerfið tryggi vöxt og viðgang fiskistofnanna og um leið að þjóðarheildin hafi sem mesta hagkvæmni af veiðunum. Þetta eru þau tvö grundvallaratriði sem ekki má missa sjónar af. Önnur mál vega mun minna en eru að sjálfsögðu til skoðunar á hverjum tíma. Við finnum aldrei kerfi sem allir verða sáttir viðog sumir munu sjálfsagt aldrei verða sáttir við neitt þessu viðkomandi. Þannig er bara lífið.“