Fimmtudagur 22. júlí 1999

203. tbl. 3. árg.

Óhætt er að segja, að Jesse Ventura, ríkisstjóri Minnesota, sé óvenjulegur stjórnmálamaður. Fjölmiðlar minna jafnan á, að áður en hann sneri sér að stjórnmálum hafði hann getið sér orð fyrir keppni í fangbrögðum og í útliti og framgöngu minnir hann lítið á venjulegan broddborgara. Þó þetta sé satt og rétt er hins vegar meira um vert að hann deilir ekki mörgum skoðunum með þeim sem mest eru áberandi í bandarískum stjórnmálum. Enda bauð Ventura sig ekki fram fyrir stóru flokkana, Repúblikana eða Demókrata, heldur fyrir Umbótaflokkinn. Íslenskir fjölmiðlar hafa sagt frá Ventura og lagt áherslu á glímuferil hans og sumir gefið þá mynd af ríkisstjóranum að hann sé hálfgerður vitfirringur. Minna hefur verið sagt frá því að áður en hann náði kjöri sem ríkisstjóri Minnesota hafði hann verið borgarstjóri í Brooklyn Park við Minneapolis svo kjósendur hafa haft allnokkra hugmynd um hvern þeir kusu.

Ventura er hlynntur því að dregið verði úr skattheimtu og ekki síður að dregið verði úr afskiptum ríkisins af borgurunum. Í ríkisstjóraframboði sínu talaði hann meðal annars um að ekki væri hægt að banna heimsku með lögum. Í aprílhefti tímaritsins Reason birtist viðtal við Ventura þar sem hann útskýrir lítillega hvað hann á þar við: „Hér í Minnesota eru meira en 10.000 stöðuvötn. Á hverju vori er fallegt veður í eina viku eða svo og 25 stiga hiti en engu að síður eru vötnin ísi lögð. Einhverjum finnst hann endilega verða að fara á vélsleða út á ísinn og sá maður endar í vatninu og drukknar. Þegar í stað vaknar um allt fylkið krafa um að mönnum verði bannað með lögum að aka á ísnum eftir að hitinn hefur verið 20 gráður í heila viku. Það er þetta sem ég á við. Það er ekki hægt að banna heimsku með lögum vegna þess að fólk fremur heimskupör og mun alltaf gera og löggjafinn ætti að hætta að reyna að setja lög til að stöðva það. Við höfum öll gert eitthvað heimskulegt. Stundum ríður heimskan okkur að fullu. En það leiðir ekki til þess að skyndilega eigi menn að fara að setja lög á lög ofan til að vernda fólk frá öllum asnastrikum. Þetta á einnig við um fíkniefnamálin. Ef fólk er nógu heimskt til að taka inn fíkniefni, nægilega ruglað til að venja sig á krakk og kókaín – hvernig ætlum við að hindra það með löggjöf?“