Miðvikudagur 21. júlí 1999

202. tbl. 3. árg.

Bandaríkin eru mesta neysluþjóðfélagið og oft fordæmd sem slíkt. Þar búa menn í stórum loftkældum húsum og aka um á stórum eyðslufrekum bílum. Engu að síður hefur dregið mjög úr útblæstri ýmissa efna í Bandaríkjunum undanfarna áratugi. Á árunum 1970 til 1997 hefur útblástur kolmónoxíðs minnkað um 32%, útblástur brennisteinsdíoxíðs (sem hefur verið kennt um súrt regn) um 35%, rykefna um 25% og blýs um 98%. Á sama tímabili fjölgaði Bandaríkjamönnum um 31%, landsframleiðsla jókst um 114% og farartæki fóru 127% lengri vegalengd. Þessar tölur sýna auðvitað að áróður umhverfisöfgamanna um að hagvöxtur, fólksfjölgun og aukin lífsgæði séu andstæð umhverfinu er vafasamur. Á þessum árum fjölgaði mjög í hvers kyns útivistarfélögum og fleira fólk átti þess kost að njóta útivistar í náttúrunni en áður. Það er raunar eitt helsta einkenni iðnvæðingarinnar að með henni hefur fólk smám saman hætt að heyja baráttu upp á líf og dauða við náttúruna og farið að njóta hennar.

Umhverfisöfgamenn hafa lengið haldið því fram að auðlindir jarðar svo sem jarðefnaeldsneyti og málmar séu senn á þrotum. Þeir hafa haft rangt fyrir sér um þetta eins og flest annað. Ástæðan fyrir því að hrakspár þeirra hafa ekki ræst er sú að þeir líta á manninn sem staðnað fyrirbæri og gera ekki ráð fyrir nýjungum. Jafnvel breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes gerði sér grein fyrir þeim framförum sem ný tækni og aukin verkaskipting hefði í för með sér. Í ritgerðinni „Efnahagshorfur fyrir barnabörnin okkar“ sem hann ritaði eftir kreppuna taldi hann horfurnar svo bjartar að „lífsgæði myndu jafnvel fjór- eða áttfaldast á næstu hundrað árum.“ Þessi spá Keynes hefur svo sannarlega gengið eftir þótt enn séu ófarnir nokkrir áratugir af árunum hundrað. Geta menn bent á einhverja vöru sem hefur ekki að einhverju leyti verið leyst af hólmi á undanförnum áratugum með nýrri vöru eða bættri útgáfu?   Geta menn bent á einhverja vöru á frjálsum markaði sem hækkað hefur í verði undanfarna áratugi? Hækkandi verð er eina haldbæra vísbendingin um aukin skort á tiltekinni vöru. Í Bandaríkjunum er iðnverkamaður til dæmis mun fljótari að vinna fyrir lífsnauðsynjum en áður eins og meðfylgjandi dæmi bera með sér en taflan hér að neðan sýnir hversu lengi hann var að vinna fyrir nokkrum vörum á árunum 1990, 1970 og 1997.

  1900 1970 1997
2 ltr. af mjólk 56 mínútur 10 mínútur 7 mínútur
1,5 kg kjúklingur 160 mínútur 22 mínútur 14 mínútur
Brauð 16 mínútur 4 mínútur 4 mínútur
Ný Ford bifreið 4696 klukkustundir (1908) 1638 klukkustundir 1365 klukkustundir

Vegna þeirra sem efast um að þessi þróun haldi áfram má geta þess að árið 1984 var verkamaðurinn 456 stundir að vinna fyrir farsíma en árið 1997 tók það hann tæpar 8 stundir. Farsímar fást nær gefins í dag. Hann var 562 stundir að vinna fyrir litasjónvarpi árið 1954, 174 stundir 1970 og 21 stund 1997. Það sem kemur þó sennilega mest á óvart er hve verð á bensíni fyrir utan skatta hefur lækkað mjög í Bandaríkjunum. Árið 1920 greiddu menn $2,19 fyrir gallonið, árið 1981, í olíukreppu, borguðu menn $2,06 og  árið 1998 kostaði gallonið $0.69. Þessar tölur eru allar á verðlagi ársins 1998. Verkamaður er líka margfalt fljótari að vinna fyrir bensíngalloninu en áður. Þessi þróun bendir alls ekki til þess að jarðefnaeldsneyti sé að klárast á næstunni. Það má líka gera ráð fyrir að ef verð á jarðefnaeldsneyti hækkar verulega muni aðrir orkugjafar, sem eru óhagkvæmir í samanburði við jarðefnaeldsneytið í dag, koma á markaðinn.