Líklegt má telja, að þann dag sem efnt verður til formlegs Íslandsmóts í heimtufrekju og sjálfsupphafningu, muni hann reynast sigursæll hópurinn sem þessi misserin berst fyrir því að skattgreiðendur reisi fyrir sig opinbera tónlistarhöll. Þar verða útgjöldin reyndar svo brjálæðisleg að þau munu ekki fara fram hjá nokkrum manni. En hið hugsanlega ríkistónlistarhús er ekki eina aðferðin sem menningarliðið notar til að hafa peninga út úr almenningi. Starfslaun, styrkir, kynningar, mannvirkjaskreytingar eru meðal þess sem notað er til að koma skattfé til þessa fólks.
Sjaldnast vekja þessar úthlutanir mikla athygli nema í þau skipti sem ófullnægðir menningarmenn skrifa stór orð í dagblöðin til að kvarta yfir því að hafa ekki fengið enn meira enn lengur. Þá sjaldan sem almenningur tekur eftir því sem er að gerast, er honum sagt að þetta sé nú allt í hans þágu, ýmist sé verið að skapa handa honum nýja íslenska menningu eða þá verið að kynna hana fyrir spenntum almenningi erlendis. Menningarmenn hafa enda samráð milli landa og tekst gjarnan að hafa fé út úr skattgreiðendum margra landa í senn með því að efna til alþjóðlegs menningarsamstarfs eða með því að fá eitt ríki til að styrkja listkynningu í öðru og svo framvegis.
Þetta rifjaðist upp þegar Vefþjóðviljinn rak augun í litla auglýsingu frá menntamálaráðuneytinu í Morgunblaðinu í gær: Ráðgert er að af fjárveitingu til norræns samstarfs í fjárlögum 1999 verði varið 100 þús. kr. til að styrkja rithöfund til dvalar á Norðurlöndum..
Einnig rifjaðist upp lítil klausa sem Egill Helgason skrifaði í tímaritið Heimsmynd fyrir nokkrum misserum (1. tbl. 9. árg. apríl 1994) þar sem hann sagði:
Það hefur aldrei neinum dottið í hug að biðja mig að aðstoða við að kynna íslenska menningu í útlöndum. Af svoleiðis starfsemi hef ég ekki nema óbeina reynslu: Til dæmis þegar ég sat fyrir rúmu ári í flugvél og fann átakanlega til smæðar minnar. Vélin var full af listamönnum og starfsmönnum menntamálaráðuneytis á leið til listkynningar í Evrópu ég skimaði yfir farþegarýmið og var ekki lengi að sjá í hendi mér að ég væri eini farþeginn sem hefði borgað flugmiðann minn sjálfur. Sem var frekar skítt. Í annað skipti átti ég það til að álpast inn á íslenska kvikmyndahátíð í París. Þar varð ég yfirleitt ekki var við að neinn innfæddur sækti kvikmyndasýningarnar, en hins vegar var þarna slæðingur af íslenskum námsmönnum að rækta í sér heimþrána. ( ) Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las viðtal við Magnús Kjartansson listmálara í Mogganum um daginn. Ég held bara að hann hafi orðað hugsanir mínar: Stundum er farið með sýningar til útlanda, um þær hefur verið lofsamlega skrifað í blöð. Staðreyndin er hins vegar sú að á þessar sýningar mæta fáir aðrir en Íslendingafélagið á staðnum sem notar tækifærið til að fara á dúndrandi fyllerí og allir eru sammála um að þetta hafi verið vel lukkað. En það kemur bara aldrei neitt út úr því og þetta á kannski almennt við um sölumennsku okkar erlendis..