Mánudagur 19. júlí 1999

200. tbl. 3. árg.

Hafnarfjörður hefur gert fjárhagsáætlun til fimm ára og hyggst nota hana til að ná tökum á fjármálum bæjarins. Mikilvægt er að sveitarfélög leiti allra leiða til að draga úr útgjöldum og ná niður skuldum sínum, enda eru útgjöld sveitarfélaga löngu komin úr böndum og verkefnin sem þau hafa tekið að sér allt of mörg og umfangsmikil. Að þessu leyti er Hafnarfjörður ekki ólíkur öðrum sveitarfélögum. Þar á bæ er miklum fjármunum varið til íþrótta- og menningarmála svo dæmi séu tekin og bæjarstjóri Hafnarfjarðar stærir sig af því að byggja eigi nýja íþróttamiðstöð í bænum og kaupa húsnæði undir leiksýningar. Æskilegt væri að hvort tveggja væri kostað af þeim sem áhuga hafa og greiða af fúsum og frjálsum vilja, en ekki öðrum

En þó þetta sé aðfinnsluvert hjá Hafnarfirði líkt og öðrum opinberum aðilum virðist sem með nýjum meirihluta framsóknar- og sjálfstæðismanna hafi ný hugsun gert vart við sig í Firðinum. Bæjarstjórinn, Magnús Gunnarsson, hefur t.d. bent á nýjar leiðir sem fara á varðandi skólamál og gætu þær ef vel er á málum haldið rutt brautina fyrir betri skóla og bætta menntun. Það sem bærinn hyggst gera er að nota svokallaða einkaframkvæmd til að reisa og reka skólabyggingu í Áslandi, sem er nýr bæjarhluti. Þetta er jákvætt, en það sem þó er enn betra er að hugmyndir eru uppi um að beita sömu aðferðum við kennslu. Það þýddi með öðrum orðum að kennsla yrði boðin út og þannig kæmist á samkeppni um bestu kennsluna fyrir lægsta verðið. Þessi hugmynd virðist ekki fullmótuð, en ef rétt er á málum haldið getur hún þýtt að tekið verði upp einhvers konar ávísanakerfi í skólum Hafnarfjarðar. Þeir gætu þá verið í einkaeigu þó menntun barna- og unglinga yrði áfram greidd með skattfé.

Einnig er jákvætt að bæjarstjórinn stefnir að því, að þrátt fyrir að útlit sé fyrir fólksfjölgun í bænum (áætlun gerir ráð fyrir 2,5% á ári), þá muni starfsmönnum bæjarins ekki fjölga. Takist þetta er það mikilvægt þegar til lengri tíma litið, enda hafa opinberir aðilar ríka tilhneigingu til að þenja út starfsemi sína. Í þessu sambandi má nefna annað dæmi um aðhald í starfsmannamálum hjá hinu opinbera, en það er að finna í menntamálaráðuneytinu. Þar fækkaði starfsmönnum um 15% á síðasta kjörtímabili. Hluti skýringarinnar er að vísu flutningur grunnskólanna til sveitarfélaga, en skýringin er einnig endurskilgreining verkefna innan ráðuneytisins og vilji til að gæta aðhalds í starfsmannamálum. Það er því ljóst að hægt er að halda aftur af fjölda opinberra starfsmanna, en til þess þarf bæði vilja og getu ráðamanna. Í Hafnarfirði virðast þeir hafa viljann og vonandi munu þeir einnig hafa getuna þegar á reynir.