Barlómurinn hefur verið helsta innlegg ýmissa svokallaðra talsmanna landsbyggðarinnar um langt árabil. Hefur viðkvæðið jafnan verið: Hvað getur hið opinbera gert fyrir okkur? frekar en Hvað getum við gert til að bæta okkar hag?.
Á fimmtudagskvöld var sýnt sjónvarpsviðtal við Þorvald Jóhannsson, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, þar sem mjög kvað við hinn gamla tón. Rætt var við Þorvald vegna þess að fram höfðu komið tölur um fólksflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, sem vissulega eru umtalsverðir. Taldi Þorvaldur að færi svo fram sem horfði myndi landsbyggðin fljótlega leggjast í auðn og til þess að sporna við þeirri þróun þyrfti hið opinbera að grípa til einhverra aðgerða. Meðal þess sem hann nefndi í því sambandi var hugmynd, sem jafnvel hefur skotið upp kollinum í sölum Alþingis, en það er að landsbyggðarmenn fái einhvers konar skattalega umbun fyrir það eitt að búa fjarri höfuðborginni. Þorvaldur taldi þetta greinilega þjóðráð, enda væri ljóst að í höfuðborginni væru greidd svo há laun að fólk flykktist þangað.
Ástæða er til að gera athugasemdir við þennan málflutning. Ósannað er með öllu að fólk flytjist til höfuðborgarinnar vegna þess að því bjóðist hærri laun þar en í heimabyggð. Kjarakannanir sýna þvert á móti að tekjumöguleikar er síst minni víða úti á landi og raunar eru Vestfirðir það svæði á landinu þar sem tekjur eru hæstar að meðaltali. Þrátt fyrir það flytjast hlutfallslega fleiri af svæðinu heldur en nokkrum öðrum hluta landsins. Tekjuhliðin getur auðvitað verið skýring flutninga í einstökum tilfellum en fráleitt er að halda því fram að þar sé að leita höfuðástæðunnar fyrir búferlaflutningum landsmanna.
Af því leiðir að breytingar á skattlagningu landsbyggðarfólks eru í besta falli afar takmörkuð leið til að sporna við þróuninni og ólíklegt að áhrifin yrðu nokkur til lengri tíma litið. Þá getur sú leið engan veginn farið saman við almenn jafnræðissjónarmið um skattlagningu, sem á að vera grundvallarútgangspunktur í sambandi við skattlagningu í siðmenntuðum ríkjum. Loks má benda á að hugmyndir um mismunun í skattkerfinu á grundvelli búsetu yrðu harla erfiðar í framkvæmd. Við hvað á að miða í sambandi við slíka mismunun? Á að búa til kerfi þar sem skattar lækka hlutfallslega miðað við fjarlægð frá Alþingishúsinu við Austurvöll í kílómetrum talið? Á landsbyggðarmaður í Sandgerði að vera í sama tekjuskattsþrepi og íbúinn á Þórshöfn eða bóndinn í Skilmannahreppi að vera í sama þrepi og bóndinn í Arnarfirði? Hver á að skera úr um það hver er landsbyggðarmaður og hver ekki í þessu sambandi? Hætt er við að kerfi sem byggt væri á einhverjum forsendum af þessu tagi yrði óframkvæmanlegt, óréttlátt og gegnsýrt spillingu.
Talsmenn landsbyggðarinnar verða að leita annarra leiða til að efla hag heimabyggða sinna heldur en koma fram í hugmyndum á borð við mismunun í skattlagningu. Mestu skiptir auðvitað að menn nálgist ný viðfangsefni, hugmyndir og tækifæri í atvinnulífinu með opnum huga, virki framtak einstaklinganna á staðnum og fái til liðs við þá áhugasama fjárfesta, innlenda sem erlenda. með því móti geta einstök byggðarlög á landsbyggðinni náð að efla sig til framtíðar. Barlómurinn leysir engan vanda heldur eykur hann. Og rétt er að hafa í huga, að breytingar á búsetu í landinu hafa alltaf átt sér stað og eru langt því frá séríslenskt fyrirbæri. Breyttar þjóðfélagsaðstæður og alþjóðlegt umhverfi kalla á breytt byggðamynstur og gegn þróun af því tagi verður ekki staðið og á ekki að standa.