Föstudagur 16. júlí 1999

197. tbl. 3. árg.

KLISJANMikill uppgangur er nú í íslensku atvinnulífi og vantar fjölda manna til ýmissa brýnna starfa. Kassagerðin auglýsir nú eftir starfsmanni til „klisjugerðar“. Vont fyrir hana að Anthony Giddens sé farinn úr landi, þar misstu Kassagerðarmenn feitan bita.

Eins og menn vita mun eitt nútímagúrúið, Hillary Clinton að nafni, koma til Íslands og sitja hér kvennaráðstefnu. Þó þessi ráðstefna ætti að vera nægileg skemmtun í sjálfri sér þá hafa skipuleggjendur haft nokkrar áhyggjur af því hvað gera megi gestinum til dægrastyttingar meðan á dvöl hans stendur hér. Þar sem frú Hillary er þekkt fyrir áhuga sinn á menningarmálum og þá einkum listiðkun kvenna vill Vefþjóðviljinn stinga upp á skemmtistað einum sem honum er ljúft að mæla með. Að vísu man hann ekki nafnið á honum en man þó að hann er í Grjótaþorpinu, milli Hlaðvarpans og Þráins Bertelssonar.