Fimmtudagur 15. júlí 1999

196. tbl. 3. árg.

„Áður verið bent á tengsl fíkniefna og nektardansmeyja“. Svo hljóðar fyrirsögn fréttar í Morgunblaðinu í fyrradag þar sem haft er eftir Karli Steinari Valssyni, yfirlögregluþjóni að lögreglan í Reykjavík hafi fyrir ári lýst yfir áhyggjum sínum við félagsmálaráðuneyti um að nektardansmeyjar féllu undir undanþágu frá kröfum um atvinnuleyfi í allt að fjórar vikur. Ennfremur er haft eftir Karli að „Lögreglan hafi haft vísbendingar um tengsl starfsemi þeirra [nektardansmeyjanna] og fíkniefnainnflutnings og síðan hafi komið í ljós þrjú til fjögur mál sem sýni fram á þetta, nú síðast innflutningur þúsunda e-taflna“.

Ekki einasta setur Karl Steinar og embætti hans niður við þessi ummæli heldur einnig Morgunblaðið, sem hefur þetta eftir án nokurra athugasemda. Hvað ef Karl fær nú grunsemdir um tengsl fjársvika og lögfræðinga? Og ef hann finnur svo dæmi um þrjá til fjóra lögfræðinga sem tengst hafa fjársvikum og jafnvel fengið dóma, hvaða ályktun er líklegt að hann dragi af því? Myndi hann lýsa yfir áhyggjum sínum við dómsmálaráðuneytið og óska eftir að heimildir lögfræðinga til að sinna fjárvörslu yrðu takmarkaðar?

Hver sá sem hefur einhvern snefil af rökhugsun sér samstundis að þrjú til fjögur fíkniefnamál, þar sem nektardansmeyjar koma við sögu, færa engar sönnur á tengsl fíkniefna og annarra nektardansmeyja, sem reyndar munu vera fimm til sex hundruð á hverju ári.

Nornaveiðar Karls Steinars eru hinsvegar enn frekari staðfesting þess að saklaus fórnarlömb eru engin fyrirstaða þegar heilagt stríð gegn fíkniefnum er annarsvegar.

Það er athyglisvert að sjálfskipaðir talsmenn kvenna ýmist þegja þunnu hljóði þegar vegið er að kynsystrum þeirra sem leggja stund á nektardans eða hreinlega leggjast á sveif með andstæðingum þeirra. Svo virðist sem ekki séu allar konur Konur í þeirra augum.